Þegar maður er frílansari þarf maður að hafa aðeins meira fyrir alls konar hlutum sem gerast nánast sjálfkrafa í staðbundinni launavinnu. Maður þarf að rukka launin, reka á eftir laununum, stundum frá mörgum mismunandi stöðum um hver mánaðarmót, standa í reddingum því tengdu, já, og svo eru lífeyrissjóðir og skatturinn auðvitað sérkapítuli út af fyrir sig.

Svo sakar ekki að búa sér til ástæður til að fara út úr húsi. Maður hittir auðvitað fólk og fer á viðburði og skreppur á ýmsa staði, eins og gengur, en svo geta komið dagar þar sem það er engin ástæða til að fara út úr húsi og hvatinn frekar að vera inni, hvort sem það er út af stífri vinnutörn, dómadags leti eða mjög mikilvægri þáttaröð á Netflix. Og ef maður hefur valið sér fallega borg til að búa í þá verður maður líka að passa að láta ekki hversdaginn gleypa fegurðina, þótt það gerist alltof oft.

Einhvers konar viðbragð við þessu var að stofna Facebook-grúppuna „Algjörlega óáhugaverðar götuheitaupplýsingar,“ til þess að hafa augun með sér í hversdeginum, eða eins og segir í haus síðunnar: „Hvað er hversdagslegra og óáhugaverða en göturnar sem við búum á eða þvælumst um? Þessi síða er til heiðurs þeim.“

Næsta skref var að setja skrefateljara í símann til þess að fá keppnisskapið með í pakkann. Og svo fann ég að það vantaði fílósófíuna og skáldskapinn til að gera flandrið skemmtilegra – og þannig varð þessi dagskrárliður á Menningarsmyglinu til. Allavega, þessi langi inngangur var aðallega ástæða til að segja ykkur að vikuna sem Karlovy Vary stóð yfir rústaði ég vikumetinu á skrefateljaranum – en dagsmetið féll algjörlega óvart fyrsta daginn heima í Prag, í nýrri viku, sumsé á sunnudegi, þegar ég ætlaði svo sannarlega að halda hvíldardaginn heilagan.

Ég ætlaði nefnilega að fara beint upp í rúm þegar heim kæmi og vera þar helst allan daginn að ná úr mér hátíðarþreytunni. Nema hvað, þegar ég er að ganga út úr dyrunum á gistiheimilinu um morguninn þá fæ ég skilaboð frá Eero um að hann hafi sofið af sér morgunflugið. Ég þarf sjálfur að passa mig á að missa ekki af rútu, þannig að ég læt stutt skilaboð um téða rútuferð duga – en ég er svo rétt mættur í rútuna þegar Eero mætir. Báðir erum við netlausir, ég nýbúinn með inneignina og Eero með finnskan síma og það er ekkert net í rútunni. Þannig að niðurstaðan eftir nokkur símtöl var flug morguninn eftir og gisting hjá mér um nóttina.

Það var langt síðan Eero hafði heimsótt Prag en hann var enginn nýgræðingur, hafði búið í nokkra mánuði í borginni fyrir löngu síðan – og það meira að segja á svipuðum slóðum. Þannig að eftir að hafa skolað af okkur af okkur hátíðarsvitann fórum við í labbitúr sem átti eftir að endast allan daginn. Fyrst þvældumst við um Náměstí Míru, Friðartorgið mitt góða við Ljúdmílu-kirkjuna, og skoðuðum vitaskuld ljóðaglymskrattann og löbbuðum með ótal útúrdúrum á bestu hamborgarabúllu bæjarins.

Á leiðinni fórum við framhjá þessu sýrlenska glæsihýsi sem ég fór einu sinni í matarboð í – og kunningi minn sem bjó þarna tók fram að auðvitað varð hann að leigja þessa íbúð þegar hann sá þessa mögnuðu framhlið. Rétt þar fyrir ofan, neðst í Rigerovy-garðinum, er svo sögusvið tékknesku sjónvarpsseríunnar The Sleepers. Þessi hurð sem þið sjáið var inngangur á vafasamri knæpu í þáttunum, njósnaþriller sem gerast árið 1989, rétt fyrir flauelsbyltingu. Þættirnir verður frumsýndir seinna í haust en við höfðum fengið forsmekkinn á Vary þar sem tveir fyrstu þættirnir voru sýndir.

Loks löbbuðum við í gegnum garðinn og söknuðum bjórgarðsins góða, sem vonandi verður endurvakinn í einhverri mynd fyrir næsta stórmót í fótbolta svo ég geti aftur lent í skemmtilegum uppákomum eins og að vera umkringdur öllum Persum borgarinnar að styðja Írani hástöfum gegn Portúgal.

Lugtarbíó og Bíó Heimssýn

Eftir matinn hugleiddum við stuttlega að fara heim og leggja okkur en auðvitað varð ofan á að kíkja niðrí bíó að skoða veggspjöldin. Á leiðinni stoppuðum við fyrir ofan lestarteinana, á brú sem liggur yfir Hlavní nadrazí aðalstöðina, og horfðum dreymnum augum á lestarteinana sem höfðu fyrst fært okkur hingað fyrir óralöngu, jafnvel undir lok síðustu aldar. Lestarstöðin er við Wilsonova-götu, nefnda eftir Woodrow Wilson, sem var svo heppinn að vera Bandaríkjaforseti þegar Tékkóslóvakía fékk sjálfstæði. Það skilar honum örlitlum ódauðleika hér, þótt á flestum öðrum stöðum sé hann með gleymdari Bandaríkjaforsetum tuttugustu aldar.

Eftir stutt stopp í tóbaksbúðinni, þar sem Eero keypti rettur og ég tók mynd af hurðarhúninum, komum við svo loksins í Kino Svetozor, 101 árs gamalt bíó sem hefur einnig átt sér líf sem kabarett. Upphaflega hét bíóið Elektra en nafninu var svo breytt í Svetozor, sem þýðir að sjá heiminn, Bíó Heimssýn væri kannski tæk þýðing ef ónefnd félagasamtök hefðu ekki rústað því orði. Og þótt við værum bíóuppgefnir eftir nýliðna kvikmyndahátíð gátum við ennþá skoðað magnað veggspjaldasafnið, Batman-afmælisveggspjöldin og bjórmotturnar sem spegla tilgang lífsins á sitt hvorri hliðinni, Pivo / Kino.

Hinum megin við götuna er svo hitt gamla indí-bíóið, Kino Lucerna, sem er ellefu árum eldra og hluti af Lucerna-byggingunni sem er líka með diskó og djassklúbb sem Louis Armstrong, Ella Fitzgerald, Josephine Baker og Vlasta Burian spiluðu einu sinni í, og Armstrong fílaði stemmarann svo vel að hann fór með músíköntunum á næsta bar til að spila meira.

Húsið var hannað af Václav Havel, langafa forsetans og leikskáldsins, en þegar kommúnisminn féll var það hins vegar fyrst og fremst mágkona Havels, Dagmar Hávlova (sem er rétt að rugla ekki saman við Dagmar Hávlova, seinni konu Václavs, það flækir málin þegar bræður giftast nöfnum í ættarnafnakerfinu), sem sýndi húsinu mestan áhuga og hefur lengstum verið driffjöðurinn í að halda starfseminni gangandi eftir byltingu.

Svo rambar maður þarna auðvitað á styttuna hans David Cerny af Václav konungi að sitja öfugt á dauðum hesti, sem gleður mann alltaf á einhvern öfugsnúinn hátt.

En hananú, það er dýrðardagur og þá er orðið tímabært að koma sér að árbakkanum. Við löbbum að vísu fram hjá Zázemi í leiðinni, einum uppáhaldsbarnum, og komumst að því að það er barinn sem Eero var mikið að spyrja hvort væri ennþá til – hann hafði þá bara breytt um nafn.

Hundasund við árbakkann

En svo komum við að árbakkanum, við Hersveitarbrú, Most Legi, en við erum ennþá einni brú frá Naplavka, besta hluta árbakkans. Það kannast mögulega einhverjir við túristagildrurnar sem fljóta rétt hjá Karlsbrúnni, fullar af okurbjór og vondri tónlist, það þarf að fara rúmar þrjár brýr í átt að Vyšehrad til þess að finna almennilega árbakkastemmningu, með góðum og ódýrum bjór og góðri tónlist eða engri tónlist í bland. En frá og með Jiráskův-brú byrjar Naplavka og á milli Palackého-brúar og lestarbrúarinnar þá er eintóm fegurð.

Þar sátum við og horfðum á svanina og endurnar og já, einn hund sem ákvað að taka smá hundasund fyrir okkur. Færðum okkur svo yfir á næsta bát, (A)void Floating Gallery, þar sem ég hef tvisvar lesið upp með fjöllistahópnum Urban Space Epics og þar sem kanadíski raftónlistarmaðurinn sem var á eftir okkur í fyrra skiptið fékk fallegasta ljósaskiptabakgrunn sem nokkurn músíkant getur dreymt um og á móti okkur situr einn fallegasta klukka borgarinnar.

En það þýðir ekki að drolla þetta, við þurfum að hitta fleiri Finna upp í Letná og úr þessu er nú ekki hægt að byrja að brúka almenningssamgöngur! Þannig að við löbbum alla leið af Karlsbrúnni, förum þar yfir – og fjandinn, hún þarf sitt eigið föstudagsflandur einn daginn, fyrir allt það ástar- og haturssamband sem allir alvöru Pragverjar eiga við þessa brú, löbbum fram hjá auglýsingu um Réttarhöldin og eftir Karlsbrúnna þvælumst við svo að tröppunum voldugu upp í Letna-garð. Stoppum fyrst hjá Stalín, þar sem brettakrakkar borgarinnar skeita yfir torgið, og fyrir neðan er útibarinn Stalín, troðfullur í kvöld.

En þótt Stalín sé skemmtilegur er rétt að fara í bjórgarðinn fyrir ofan – sem er kannski bara frekar hversdagslegur bjórgarður, sjarminn er meiri hjá Stalín, en útsýnið hins vegar – þarna blasir borgin mín við manni, vöktuð ljósastaurum sem lýsa upp himininn.

En kvöldinu er að ljúka, við þurfum að tryggja að Eero missi ekki af öðru flugi, en við þurfum samt að borða aftur, við erum búnir að þramma hálfa borgina frá síðasta matartíma, þannig að við tökum loksins sporvagn við götu nefnda eftir Edvard Beneš, gamla útlagaforsetanum og utanríkisráðherranum hans Masaryks, sem varð svo alvöru forseti áður en hann var svo sendur í pólitíska útlegð af kommúnistunum 1948. Við höldum að sjálfsögðu á U Sadu, besta miðnætursnarlið í Prag er einmitt þar, og þar rennur miðnætti í garð og síminn minn drepst þannig að labbið heim missir alveg tilgang sinn eftir þennan rúmlega 30 þúsund skrefa dag (32,790 til að vera nákvæmur). Komum þó við hjá hinum Finnunum svo þeir geti sýnt okkur skrítna risastóra finnska bruggtunnu – en svo: heim að sofa svo flugvélin skilji Eero ekki aftur eftir.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson