Peter Handke er nýbakaður Nóbelsverðlaunahafi og það eru allir að rífast um hann, án þess þó að nefna verkin hans að ráði. Ástæðan er einföld og augljós, hann var ákafur stuðningsmaður Serba í Júgóslavíustríðinu og gekk það langt að vera sérlegur bandamaður Slobodan Milošević. Ég skil hann aðeins, tendensinn, það er rétt hjá honum að þegar leið á stríðið fór Vestræna pressan offari í leit af vonda kallinum (en hafði kannski verið hættulega hlutlaus framan af) og einfaldaði flókið stríð úr hófi fram með því að kenna Serbum um allt.

En þeir voru engu að síður sekir um ansi margt og Slobodan Milošević er án nokkurs vafa skelfilegur stríðsglæpamaður. Þannig virðist manni Handke fylgja í fótspor ansi margra tuttugustu aldar hugsuða sem hugsuðu sig í einhverja blindgötu, manna eins og Heidegger, Hamsun, Ezra Pound og Céline. En af hverju var austurrískur rithöfundur að skipta sér svona mikið af Júgóslavíustríðinu?

Jú, mamma hans var af slóvenskum ættum og hann ferðaðist oft til gömlu Júgóslavíu. Hann skrifaði bók í stríðinu miðju, Eine winterliche Reise zu den Flüssen Donau, Save, Morawa und Drina oder Gerechtigkeit für Serbien – og af einhverjum ástæðum sá enski þýðandinn ástæðu til þess að stytta titilinn niður í A Journey to the Rivers: Justice for Serbia. Hún virðist nærri ófáanleg á ensku, nema notuð á 1500 pund á Amazon, og ég væri líka að ljúga ef ég þættist mjög spenntur fyrir að lesa hana.

Ég var forvitnari að vita aðeins betur hvaðan Hendke kæmi, hvaðan kæmi þessi blinda? Þannig að ég fann Óskabarn ógæfunnar (A Sorrow Beyond Dreams á ensku, Wunschloses Unglück á þýsku) sem hann skrifaði í kjölfar sjálfsmorðs móður sinnar, aðeins 51 árs að aldri.

Hún var fædd í Austurríki, hluti af slóvenska minnihlutanum í Kärnten-héraði, og bjó megnið af ævinni í smábænum Griffen, en undan eru skilin nokkur ár í Berlín sem ung móðir. Handke lýsir sorginni einkennilega en þó einlægt, á sinn hátt, segir okkur frá því hvernig hann hafi staðið meira en klukkutíma yfir kistunni, eins og hann hafði ætlað sér, en leiðst – en gat svo ekki slitið sig frá henni þegar klukkutíminn var liðinn. Hann lýsir fyrir okkur hvernig honum var illa við samúðaróskir „af því ég þurfti á þeirri tilfinningu að halda að það sem ég var að ganga í gegnum væri óskiljanlegt og ómögulegt að tjá.“

Bælda sveitaþorpið

Eftir þennan formála hefst Handke svo handa við að segja sögu móður sinnar. Sú mynd sem birtist manni fyrst er af lífsglaðri stelpu, í bæ þar sem karlremba tíðarandans gerði allt til að berja úr henni lífsgleðina. „Spákonurnar og spámennirnir á kirkjuhátíðunum sýndu einungis lófum strákanna áhuga, framtíð stúlku var bara brandari.“

Stelpurnar spiluðu leiki sem snérust um möguleika konunnar – og möguleikarnir voru „Þreytt/örmagna/veik/deyjandi/dauð.“ En hún vildi fara og læra eitthvað, ósk sem enginn hlustaði á. Hún dreif sig þó í húsmæðraskóla, án leyfis, en kom svo aftur – og hægt og rólega fór hún að sættast við hlutskipti sitt.

Hún eignaðist Peter með æskuástinni, að því er virðist eina manninum sem hún nokkurn tímann elskaði, en bjó svo til æviloka með fósturföðurnum, alkóhólista og bölvuðum durg sem hún þoldi aldrei. Þetta var ástlaust ofbeldishjónaband, oft í sárri fátækt.

Henni tókst þó að læra að vera heimsborgari (eða þykjast vera) þegar þau fluttu til skamms tíma til Berlínar, hálfri öld seinna hefðu það vafalaust verið örlög snjallrar sveitastelpu með þessa skapgerð, en hún var fædd alltof snemma fyrir það.

Nýtt líf, nýtt stríð

En áður en misheppnaðir karlar fóru að trufla líf hennar óhóflega réðust nasistarnir inn í Austurríki.

Hún lýsir þessu sem spennandi tímum, þau hafi verið spennt, loksins var einhver eining, fólk gerði alls konar hluti saman, sérhver dagur var hátíð langt fram á nótt. „Skyndilega fékk allt þetta skrítna og óskiljanlega í heiminum tilgang og varð hluti af einhverju stærra, jafnvel ömurleg vélræn vinna varð gleðileg og merkingarbær. Sjálfvirkar hreyfingar þínar öðluðust reisn, því þú sást ótal aðra gera það sama. Nýtt líf, þar sem þú upplifðir öryggi en jafnframt frelsi.“

Vitaskuld entist þetta ekki – og Handke tekur fram að móðir hans hafi alls ekki verið pólitísk, þetta var meira tilfinningin. En mögulega má rekja þessa pólitísku blindu hans sjálfs þangað, einhver óknytta ættarfylgja? Löngu seinna varð hún svo pólitísk og fór að kjósa sósíalistana, og fékk jafnvel bölvaðan eiginmanninn til þess að gera það líka. En samt, maður skynjar mjög takmarkaða pólitíska vitund hjá þeim mæðginum báðum. En þar sem sonurinn skrifar, þá ber hann mögulega stærstu sökina.

Ástin sótti hana heim í stríðinu. Hún hafði verið hrædd við karlmenn – eða kannski öllu frekar, þótt það sé ekki orðað, frelsissviptinguna sem karl og börn myndu líklega kosta í þessu afturhaldsþorpi. En svo varð hún ástfangin af hermanninum þýska, pabba Handke, og giftist svo stjúpföðurnum, eiginlega meira í leit að öryggi. „Svo hélt ég hvort eð er að hann yrði drepinn í stríðinu,“ sagði hún mér. „En skyndilega fór ég að hafa áhyggjur af honum.“

En hann lifði stríðið af, svo hún gæti dregið hann út af ótal knæpum svo hann gæti mætt í vinnu daginn eftir.

Stríðið gegn gleðinni

Stríðið geysaði enn en hún hafði tapað sínu eigin stríði. Stríðinu gegn gleðinni, sem fór fram jafnt á stríðstímum sem og friðartímum í þessum afturhaldsheimi sem hún fæddist inní. „Örlítil gleði, dansspor í vinnunni, að humma nýlegan slagara, allt þetta var kjánaskapur, sem henni fannst sjálfri líka bráðum, af því þetta vakti engin viðbrögð og hún var ein með eigin gleði.“

Þetta barði hana niður. Hún varð kynlaus, og lífið varð svo erfitt „að í fyrsta skipti á ævinni þurfti hún að hlusta á rök. Hún hlustaði, en skyldi ekkert.“

Og svo, hinn endanlegi ósigur: „Skömmin sem henni hafði ævinlega verið predikuð var loks orðin hluti af henni.“ Göngutúrar á virkum dögum, að verða ástangin aftur, skreppa á krána í einn sjúss, allt þetta var illa séð.

Henni var bara ætlað að sjá um heimili og eignast börn og það gerði hún, en þó ekki jafn mörg og henni var ætlað. „Án þess að hann vissi af því framkvæmdi hún fóstureyðingu á sjálfri sér með prjónanál.“ Fóstureyðingar móðurinnar eru fljótafgreiddar – þessi fyrsta situr í manni, jafn brútal og hún er – en þær næstu verða frekar hversdagslegar. Ég held þær hafi verið þrjár í allt, kannski fjórar.

Erfiljóð um ófrjálsan anda

En svo er eins og hún ranki við sér, byrji að berjast á móti. Þegar vinnuálagið minnkaði og börnin uxu úr grasi „varð hún hægt og rólega hún sjálf aftur.“

Bókmenntirnar björguðu henni. „Hún las dagblöðin, en hún kunni betur að meta skáldsögur með sögum sem hún gat speglað eigið líf í. Hún las bækurnar sem ég var að lesa, fyrst Fallada, svo Knut Hamsun, Dostojvskí, Maxím Gorkí, svo Thomas Wolfe og William Faulkner.“

Hún tók þessu persónulega. „Ég er ekki svona,“ sagði hún, eins og rithöfundurinn hafði verið að skrifa um hana. Fyrir hana, var sérhver bók skýrsla um líf hennar.“

Þessi bókelska kona er skemmilegasta útgáfan af mömmunni í sögunni. Kannski var það hún sem hefði átt að verða Nóbelsverðlaunarithöfundur, ekki Peter? „Þessar bækur gera mig unga aftur,“ segir hún – en veit samt af ósigri sínum.

Hún finnur að þetta er of seint, æskan er liðin, lífsins braut er mörkuð. „Bækurnar voru henni bara sögur um fortíðina, aldrei draumar um framtíðina, í þeim gat hún fundið allt sem hún hafði farið á mis við og gæti aldrei leiðrétt. Snemma á ævinni hafði hún afskrifað framtíðina.“

En hún er að finna sig. „Hún var hægt og rólega að verða að einstaklingi,“ segir Handke – en maður getur ekki annað en staldrað við og hugsað: Getur samt verið að þarna hafi hann bara loksins verið orðinn nógu gamall og þroskaður til að sjá það?

Þarna virðist hún vera byrjuð að trúa honum fyrir ýmsu – lengi framan af bók furðaði maður sig á hvernig hann vissi þetta mikið um ævi móðurinnar, voru dagbækur til staðar, trúnaðarsamtöl – en svo segir hann einfaldlega: „Alltaf þegar hún sagði mér frá þessu seinna meir – og það að segja frá var henni þörf.“

En þessi sumarauki í lífi hennar var skammvinnur. Skömmu síðar bankaði andlegur og líkamlegur heilsubrestur upp á. Hún gleymir sjálfri sér í löngum göngutúrum og ratar ekki heim í myrkrinu, það er einhver óræður hryllingur sem hún talar um eins og Kurtz hershöfðingi.

Handke er greinilega fluttur í burtu og hún skrifar honum. „Bréfin voru full ákafa, eins og hún væri að reyna að höggva sjálfa sig inní pappírinn.“ Kannski ósk um að hann skrifi um hana, beri lífi henni vitni.

Nafnlausa móðirin

Sem hann sannarlega gerði. En gerði hann það vel? Að sumu leyti. Þetta er forvitnileg aldarfarslýsing, birtir okkur vel stöðu konunnar á þessum stað og tíma – og það hvernig kynjamisréttið reyndist í raun banvænt. Þetta fordómafulla orð, móðursýki, mögulega bara lýsing á örvæntingu yifr öllu misréttinu.

En aðferðafræðin er samt ekki alveg að virka. Hann lýsir henni raunar á einum stað:

„Vitaskuld er það sem skrifað er um ákveðna manneskju frekar almennt; en aðeins slík almenn skrif, sem taka ekki tillit til þess að móðir mín hafi mögulega verið einstök sögupersóna í einstakri sögu, getur bara verið áhugavert fyrir sjálfan mig.“

Nákvæmlega í þessari setningu súmmerar Handke upp veikleika sína sem höfundar, að minnsta kosti þegar þarna er komið sögu, snemma á ferlinum. Bókmenntir geta vissulega fært okkur sannleika um hið almenna og sammannlega og skoðar hugmyndir sem eru stærri en við sjálf – en þær gera það oft best með því að leyfa sögupersónunum að vera einstakar.

Þessi aðferðafræði lýsir frekar vel pennafærum félagsfræðingi eða sálfræðingi, frekar en skáldi. Hann er mjög greinandi, greinir jafnvel eigin tilfinnigar niður í öreindir í stað þess að leyfa okkur að kafa inní þær. „Í þessu stormviðri óttans verð ég segulmagnaður eins og rotnandi dýr, og, ólíkt stefnulausri ánægju, þegar allar mínar tilfinningar leika sér kæruleysislega, hellist yfir mig stefnulaus hlutlægur ótti.“

En móðirin berst á móti. Eða öllu heldur, Maria berst á móti. Hún er aldrei nefnd á nafn í bókinni, eitthvað sem er vafalaust meðvitað, en engu að síður röng ákvörðun – rænir hana persónuleikanum. En „hún neitar því að verða einangruð og verður því óskiljanleg. Setningar mínar standa í myrkrinu og steypast yfir síðuna.“

Hann spyr: „Hvernig finnst þér að vera svikin um eigin ævisögu og tilfinningar.“ Án þess að spyrja, af hverju skrifar hann svona ópersónulega bók um móður sína? Alltaf móður vel að merkja, ég var að gera orðaleit í kindlinum – orðið „mom“ kemur aldrei fyrir. Hér er ekkert verið að þúa móðurina.

Börnin eru líka að mestu fjarverandi, jafnvel hann sjálfur, það er aðeins örfáum orðum eytt á það og systkynin aldrei nefnd á nafn. Þó virðist hún hafa verið góð við þau, barði þau aldrei (og að það skuli tekið fram vafalaust tímanna tákn) en „snýtti þeim stundum harkalega.“ Við sjáum mynd af þeim þar sem yngsta dóttirin, eins árs, er í innkaupapoka þegar þau snúa aftur í smáþorpið stuttu eftir stríð. En það er ekki farið nánar út í þá mynd, systkyni hans eru hálfgerðir draugar og hann reynir líka að halda sjálfum sér til hlés.

Það er ekki beint að ég sakni barnanna hennar sem slíkra, ég sakna frekar að komast að því hvernig áhrif hún hafði á þau – það hvernig foreldri þú ert segir óneitanlega sitt hvað um hvernig manneskja þú ert. En áhrif hennar á þau, eða altént Handke sjálfan, birtast þó óbeint.

Sú tilfinning sem læðist að manni eftir því sem á bókina líður er að þessi ættarfylgja siðvanda og bælda austurríska smábæjarins hafi fylgt Handke sjálfum líka. Hafi gert hann af hæfileikaríku en köldu og húmorslausu skáldi. Það hvernig hann lýsir tilfinningum er kannski vísbending um það. Hlátrinum lýsir hann svona: „Hún byrjaði að hlæja aftur, og stundum svo hátt að þau grettu sig.“ Tárunum lýsir hann svo svona: „þögul tár runnu tilgangslaus niður andlit sem leit undan.“

Þessar óþarfa tilfinningar, þessar ósmekklegu tilfinningar.

Stolt sjálfsmorð

En hans tilfinningar fara nú samt að gægjast upp á yfirborðið eftir sjálfsmorð móðurinnar. „GOTT. GOTT. GOTT. Og allt flugið var ég gagntekinn stolti yfir að hún hafi framið sjálfsmorð.“

Þetta er einkennileg tilfinning, eins og sorgarviðbrögð svosem oft eru. Og maður hugsar: sér hann kannski uppreisn eða hefnd í þessu sjálfmorði? Gagnvart grandvara og bælda smábænum sem rændi hana lífinu?

Þegar á staðinn er komið veltir hann fyrir sér hversu margir smitast af banvænum sjúkdómi í jarðarförum. En finnur líka þörfina, þessa reiði, „minni getulausu reiði, þar sem ég fann þörf fyrir að skrifa eitthvað um móður mína.“

Svo kemur söknuðurinn. „Hún dó á föstudegi og næstu vikur var dauðaangist hennar næst mér á föstudögum. Allir föstudagsmorgnar voru sársaukafullir og myrkir. Gult skin ljósastauranna í næturmistrinu, skítugur snjór og fnykur úr ræsunum, krosslagðir handleggir í sjónvarpssófanum, síðasta klósettið sturtað niður, tvisvar,“ segir hann og lofar að lokum: „Einhvern daginn mun ég skrifa um hana í meiri smáatriðum.“

Ég veit ekki hvort hann er búinn að því – en kannski er ljóðið fræga um barnið í raun um hana og jafnvel hann. Áður en þau urðu ættarfylgju bælda smábæjarins að bráð, áður en bernsk forvitnin og lífsgleðin var barin úr þeim?

E.S.: Upphaflega var bókin íslenskuð sem Sorg handan draumanna í þessum pistli. En hálfu ári eftir að þessi pistill var skrifaður kom þýðing Árna Óskarssonar á bókinni út og sjálsagt að nota frekar prýðilega íslenskun hans, Óskabarn ógæfunnar, frekar. Tilvitnanir úr bókinni eru þó eftir sem áður þýðingar undirritaðs, enda ekki með íslensku útgáfuna við höndina.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst
áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson