Agnieska Holland er mögulega evrópskust allra leikstjóra. Hún er fædd í Póllandi, lærði kvikmyndagerð í Tékklandi og flúði kommúnismann til Frakklands, og hefur í gegnum tíðina gert myndir jöfnum höndum á pólsku, tékknesku, þýsku, frönsku og ensku. Hún hefur gert bíómyndir núna í 50 ár en týndist dálítið í tæpa tvo áratugi þegar hún vann hvað mest í Hollywood, fann sig þar á endanum í upphafi gullaldar sjónvarpsþáttanna, þar sem hún var meðal lykilleikstjóra þáttaraða eins og The Wire og House of Cards, en hefur gengið í endurnýjun lífdaga undanfarin áratug í gömlu Evrópu með nokkrum mögnuðustu mynda síðustu ára.
Þar er ég að tala um In Darkness, mini-seríuna Brennandi runna, Pokot og Mr. Jones, allt sögur sem gerast að mestu leyti í gömlu Austur-Evrópu, nánar tiltekið í Póllandi, Tékklandi eða Rússlandi og Úkraínu.
Ég hef þó verið í minnihluta gagnrýnenda með mörg þessara verka, og er dálítið hugsi yfir því – en samt, ég hef á tilfinningunni að heima á Íslandi þá sé henni almennt betur tekið. Málið með hana Agnieszku er nefnilega þetta, hún er sannarlega gamaldags leikstjóri – en í besta skilningi þess orðs. Hún er fagmanneskja fram í fingurgóma og kann á myndmálið, en hún er fyrst og síðast sögumaður. Og já, hver veit, kannski er eitthvað íslenskt við að setja helst söguna í fyrsta sætið, hver veit?
Nýjasta myndin hennar stendur þó þessum áðurnefndu aðeins að baki, þótt ágæt sé.

Hún gerist í Tékklandi og fjallar um heilara, sem kallaður er skottulæknir af sumum eins og titillinn gefur til kynna; Charlatan. Hún hefst þó á andláti öllu þekktari manns, nefnilega Antonín Zápotocký, sjötti forseti Tékkóslóvakíu. Hann hafði það fram yfir bæði forvera sinn og arftaka að vera ekki harðlínudurgur af Stalínismaskólanum, með öðrum orðum, hann var illskástur þeirra þriggja kommúnistaforseta sem komu á undan þeim Alexander Dubček og Ludvík Svoboda, leiðtogum flokksins þegar voraði í Prag.

En það sem meiru skiptir fyrir sögu heilarans Jan Mikolášek þá var forsetinn fyrrum sjúklingur hans. Sem hafði skiljanlega haldið verndarhendi yfir honum. Þegar sú verndarhendi er stirðnuð þá gera kommúnistayfirvöld allt til þess að koma þessum kuklara fyrir kattarnef, þetta er saga um bókstaflegar nornaveiðar.
Mikolášek þessi var söguleg persóna, víðfrægur heilari sem hafði tvo ofurkrafta að virtist, annars vegar gat hann lesið hvers kyns krankleika og lausnir við þeim í þvagsýni, jafnvel nákvæman dánardag (þótt hann læri snemma að deila þeim upplýsingum helst ekki með sjúklingum) – og þá kann hann flestum öðrum betur að týna jurtir og gera úr þeim lækningarseyði.
Hann er alla tíð harður á því hvað hann sé, hann er enginn læknir og leiðréttir alla sem kalla hann það. Hann er einfaldlega heilari og grasafræðingur.
Hann er líka samkynhneigður og ágætlega efnaður, sem hvoru tveggja var vitaskuld harðbannað í þá daga. Já, og í ofanálag alveg dálítill bastarður á köflum líka. Hann hefur einlæga ástríðu fyrir að lækna fólk – og fórnirnar sem hann færir, eða öllu heldur durgshátturinn sem hann leyfir sér í nafni þess, verður til þess að maður frestar því að dæma hann, svo framarlega sem mixtúrurnar eru raunverulega nógu miklar töframixtúrur að þær lækni þúsundir, já, þá má kannski fyrirgefa honum durgsháttinn, sérstaklega þegar kemur að hundtryggum aðstoðarmanni hans – og elskhuga.

Svona í framhjáhlaupi var raunar dálítið gaman að því að lesa viðtal við Agnieszku þar sem hún segir hann minna sig dálítið á Kevin Spacey, sem hún leikstýrði í House of Cards; svívirðlega sjarmerandi og hæfileikararíkur, en um leið algjör bastarður.
Galli myndarinnar er þó sá sami og hjá Exil – litapallettan er einfaldlega of dökk. Ekki alltaf, fortíðin er í gylltum bjarma – og þótt þetta sé vafalaust úthugsað og vísun í gráma verstu kommúnistaáranna þá gerir þetta samt alltof oft að verkum að maður fjarlægist söguna.
En alltaf lifnar þó yfir myndinni þegar grasafræðingurinn fær þvagsýni í hendurnar. Hann hristir það, ber það svo upp að ljósinu og rýnir í það, rýnir í slæður, eindir, botnfall og bletti í þvagi – rýnir í þennan gyllta vökva sem við losum flest við okkur oft á dag í fullkomnu hugsunarleysi og sér þar líðan okkar, heilsu og jafnvel líf og dauða.
Sem minnir raunar á þá sérvisku tékkana að hafa flest salerni sín með útsýnispalli, þar sem vel má virða fyrir sér afraksturinn áður en sturtað er niður. Mögulega er þessi alþýðufræði Mikolášek ekki jafn sérviskuleg og mætti halda, mögulega er þetta vanmetið alþýðusport sem er stundað víðar en marga grunar.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson