Sigríður Larsen er uppalin á Akureyri en hefur búið lengi í Danmörku og gaf nýlega út bókina CRASH KALINKA í Danmörku. Bókin fjallar um flugfreyjuna Sólveigu Kalinku Karlsdóttur og í dómi Berlingske er bókinni lýst sem brjáluðu ferðalagi um flugbransann, kabarett og íslenska hjálendusögu.
Hvernig atvikaðist að þú gafst út þína fyrstu bók á dönsku?
Ef ég gæti skrifað á íslensku þá myndi ég gera það, en danskan mín er betri. Vegna þess að íslenskan mín er hörmung eftir öll þessi ár úti. Það er ákveðin áskorun að skrifa á dönsku, sérstaklega fyrir Íslending, þar sem danskan er ótrúlega óljóðrænt tungumál og orðaforðinn nánast enginn. Þú færð ekkert gefins. Það er líka ákveðin sjarmi í því.
Um hvað er Crash Kalinka?
Það er ekki mitt að segja. Hver manneskja upplifir bókina á sinn hátt. Hér í Danmörku er mjög vinsælt að rithöfundar „útskýri“ bækur sínar í viðtölum, mér finnst skrítið að gera það. En það hefur verið gaman að fylgjast með hvernig gagnrýnendur hafa tekið bókinni. Margir virðast sammála um að hún sé hálfgert viðundur, að hún hagi sér ekki eins og skáldsaga, að hún sé róttæk – „fandenivolsk“ og svo framvegis. Það sem hefur komið mér mest á óvart er hvað flestum finnst hún fyndin. Að ég sé bara skemmtikraftur dauðans. Ég hélt þetta væri meira svona stand-up-tragedy.
En ég get sagt að CRASH KALINKA snýst um meira en crash í ýmsu formi, eða það er að minnsta kosti túlkun mín. Að það séu margir strúktúrar og svið sem spila saman og/eða takast á. Aðalhlutverkið, Sólveig Kalínka Karlsdóttir, upprennandi flugfreyja, er bara peð í stærra samhengi, sem og allir aðrir sem koma við sögu. Eins og í raunveruleikanum.
Hvaða áhrif hafði kófið á útgáfuna?
Útgáfunni varð frestað endalaust, en þegar hún loksins kom út (11. júní) þá var það í kyrrþey svo að segja. Pínkulítið útgáfuteiti á forlaginu, 29 manneskjur boðnar, gífurlegt magn af áfengi og ostapoppi og spritti á boðstólum, mjög smekklegt.
Eru einhver plön að þýða bókina á íslensku?
Ég vona að það gerist. Ég ætti að vera löngu búin að hafa samband við íslenskar útgáfur. Sérstaklega núna á tímum Covids þar sem Statens Kunstfond er að styrkja þýðingar á dönskum bókmenntum. Það verður næsta verk.

Hver leikstýrir ævisögunni og hver leikur aðalhlutverkið?
Það mun verða samvinnuverkefni. Jane Champion, Martin Scorsese og Nanna Kristín Magnúsdóttir leikstýra saman. Claire Danes leikur aðalhlutverkið með réttu tækninni. Það munu líka nokkrir vinna tónlistina saman; Ennio Morricone (með aðstoð íslensks miðils), Rodgers & Hammerstein (með aðstoð sama miðils) og Hildur Guðnadóttir.
Hver er eftirminnilegasta utanlandsferðin?
Þegar ég fór til Prag 14 ára með pabba mínum og farmor, dönsku ömmunni minni. Þetta var í fyrsta skipti sem ég ferðaðist lengra suður í Evrópu en til Hannóver, þarna opnaðist nýr heimur fyrir rómantíska unglinginn. Þetta var svona klassísk rútuferð með leiðsögukonu, fyrsta skipti sem ég gisti á hóteli, mér leið einsog í skáldsögu. Á hverjum morgni vöknuðum við farmor við dúfnasöng inn um gluggann, alveg eins og i myndinni Óbærilegur léttleiki tilverunnar, og gamla fékk sér mjólkurglas og cerut, mínivindil, í hvíta náttkjólnum sínum og starði fram fyrir sig, ógleymanlegt.
Ég var svo ástfangin af Prag, sveif þarna um göturnar dáleidd með Moldau eftir Smetana á repeat í heilanum og fannst hjartað vera að springa. Keypti Kafkabol og reykti cigarettur með farmor uppi á dekki á kitch-túrístabát í rökkrinu þegar pabbi sá ekki til. Töfrandi allt saman.

Hvaða listaverki myndirðu vilja smygla inná öll heimili?
Þvottavél.
Er einhver útlensk bók sem þú hefur lesið sem virkilega þarf að þýða yfir á íslensku?
A hora da estrela eftir brasiliönsku skáldkonuna Clarise Lispector. Og CRASH KALINKA eftir Sigríði Larsen.

Forvitnilegasta ljóðskáld 21 aldarinnar?
Donald Trump. Absúrdísmi í hæsta veldi.
Ef þú ynnir sem skólabókavörður, hvaða bókum myndirðu helst lauma að börnunum?
Múmínbækurnar eftir Tove Janson. Upprunalegu útgáfurnar, ekki þessar nýju asnalegu feelgoodskruddur.
Hvaða kennari hafði áhrif?
Hans Otto Jørgensen, rithöfundur og kennari í Gladiatorskólanum. Hann á engan sinn líka. Það var líka hann sem kom því í verk að ég yrði kennari hjá Gladiatorskólunum og barðist fyrir því lengi vel að bókin mín yrði gefin út.
Þú ert ráðinn dagskrárstjóri hjá kvikmyndahúsí í eina viku (með ótakmörkuð fjárráð) – hvað yrði á boðstólnum?
David Attenborough allan sólarhringinn.
Ef fimmtán ára þú fengi að vita hvernig staðan er hjá þér núna hvað þætti unglingnum þá um það hvernig hefði ræst úr þessu hjá ykkur?
Þegar ég var fimmtán ára unglingssnót á Akureyri og fastakúnni á bókasafninu þá voru rithöfundar í mínum augum guðir. Stórkostlegustu manneskjur í heimi. Og flest allir karlar, auðvitað. Svo ætli það kæmi ekki skemmtilega á óvart.
Hvað er skemmtilegast og leiðinlegast við að gefa út bók?
Skemmtilegast er að skrifa hana. Allt í kringum útgáfuferlið er frekar fjörlítið.
Hvar er draumurinn?
Persónulega: Að ég geti haldið áfram að skrifa bækur og kenna skrif jafnframt því að sjá sómasamlega fyrir börnunum mínum. Að Gladiatorskólinn sem við erum að fara að stofna á Akureyri í haust verði til frambúðar svo ég geti alltaf átt heima á Íslandi.
Í heild: Hugarfarsbreyting á heimsmælikvarða.
Hvernig er bókmenntasenan í Danmörku?
Gyldendal er lang stærsta útgáfufyrirtækið og hefur mannafla og peninga til að koma á framfæri krimmunum sínum, matreiðslubókum, ævisögum fræga fólksins, hefðbundnum skáldsögum og svo einni og einni „öðruvísi“ bók, jafnvel ljóðabók.
En hins vegar hafa mörg lítil forlög, „mikroforlag,“ sprottið upp síðustu ár, metnaðarfull forlög sem gefa út nýjungagjarnan skáldskap og mikilvægar þýðingar af útlenskum bókmenntum. Gladiator, sem er líka útgáfan mín, er ekki beinlínis míkróforlag en er heldur ekki stórt, en það hefur skapað sér vissan sess í bókmenntaheiminum sem þýðir að við rithöfundarnir eigum séns á því að fá gagnrýni í stærstu blöðunum, hjá bókabloggurum og svo framvegis.
En margir góðir rithöfundar frá minni forlögum fá enga eða mjög litla athygli sem er ekki til fyrirmyndar. Það sorglega er að það vantar alls ekki pláss, þvert á móti, en fjölmiðlar eiga það til að missa sig yfir einum eða tveimur meinstrím rithöfundum með endalausum tilgangslausum viðtölum um þetta og hitt, og það fyllir út allt plássið. Stórfurðulegt. Svo er mikið hæp í kringum íslenskar bókmenntir í augnablikinu, sem er fínt en kannski einum of á köflum. En ætli það gagnast mér ekki. Að minnsta kosti hafa hafa fleri miðlar, þar á meðal bókasafnssíður og Litteratursiden sett CRASH KALÍNKU í flokkinn „Islandsk litteratur.“ Ekki slæmt að lenda í þeim flokki.
Nú hefurðu bæði lært og kennt ritlist. Hvernig hjálpar það skrifunum?
Ég lærði ritlist í háskóla á sínum tíma, það var mjög akademískt og mjög langt frá því hvernig kennslan fer fram á Gladiatorskólunum þar sem allir kennarar eru rithöfundar og hafa alls konar bakgrunn. Að kenna ritlist er mjög gefandi á allan hátt, en líka mjög krefjandi. Mér líður oft eins og heilinn í mér hafi farið í maraþon eftir einn vinnudag. Þá er engin orka eftir fyrir skrif. Stundum hugsa ég að það væri best að vinna bara í fiski með hljóðbók í eyrunum, sem er hrikaleg lúxushugsun og rómantísering á fisksvinnslu. Auðvitað er það draumadjobbið að fá að vera alltaf að vera að grúska í bókmenntum. Ég upplifa líka oft að nemendur mínir koma með texta sem á einhvern hátt hafa svo áhrif á skrifin mín.
Hverju hefurðu mestar áhyggjur af?
Börnunum mínum og framtíð þeirra. Fjárhag og heilsu. Jörðinni okkar. Kapítalismanum og tvíbura hans Fasismanum sem tröllríður heiminn.
Ljósmyndari tekur portrett-mynd af þér – hvað væri hinn fullkomni bakgrunnur?
Bókahillur, haha. Nei, ætli það yrði ekki þvottavélin. Eða sólin.
Hvaðan koma þessi neon-ljós á kápunni?
Montmartre, bien sür.
Merkilegasti óuppgötvaði listamaðurinn?
Egill Logi Jónasson aka Drengurinn Fengurinn aka frændi minn. Ekki alveg óuppgötvaður, en samt ekki nógu uppgötvaður.
Hvort finnst þér þægilegri tilhugsun um að lífið sé tilviljanakennt eða að lífið sé fyrirfram ákveðið?
Sú síðari væri lang þægilegust, eins og guðstrúin. En því miður hef ég enga trú á henni.
Hvað gerðirðu við peninginn sem frúin í Hamborg gaf þér?
Borgaði námslánin mín. Og keypti fjallahjól fyrir mig og strákana. Gönguskíði. Tjald. Frið á jörðu.
Nærðu að lifa af listinni – og ef svo er, hvernig?
Nei. Og það mun ekkert breytast í nánd. Nema ég fái listamannalaun.
(Spurning frá síðasta smyglara, Halli Erni Arnarsyni:) Hvað finnst þér um listamannalaun?
Mér finnst það í góðu lagi að listafólk fái laun fyrir vinnu sína eins og aðrir.
Hvaða plötu á lesandi að setja á fóninn á meðan hann les þetta?
Pastel Blues. Nina Simone.
Síðasta sjónvarpsþáttasería sem þú horfðir á í einni lotu?
Binge watching? Ég er einstæð móðir með tvo krakkaorma 24/7 allan ársins hring. Ef ég loks fæ tíma aflögu fyrir sjálfa mig þá snýst það meira um binge-writing eða binge-laundry eða binge-drinking (Icelandic style).
Uppáhaldsorðið þitt?
Listamannalaun. Útilega. Himbrimi. Kyrrð. Fjall. Vinátta.
Hvernig finnst þér best að hlusta á tónlist?
Ég á engar græjur lengur en hrúgu af geisladiskum og plötum, sem er amalegt. Svo ég youtuba stundum á tölvunni eða símanum þegar ég bý til kvöldmat, ekki beinlínis hljómgæði. Reyni að æsa strákana mín í að hlusta á alvöru tónlist og ekki bara minecraftvidjó. Ég er stöðugt með Enderman-rapp á heilanum, sem gæti gert manneskju vitfirrta en ég svo vitlaus að mér finnst það bara alveg ágætt, hef sætt mig við örlög mín.
Er eitthvað sem þú vilt spyrja næsta smyglara?
Hvað finnst þér í alvöru um Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga?
Hvað ertu að skrifa núna?
Einhver skringileg blanda af sjálfshjálparbók og dystópíu, sýnist mér. Það er að segja ég hef ekki hugmynd. Sem er gott.