Þriðji þáttur af Ljóðamála á almannafæri fer í loftið klukkan 20.30 á N4 í kvöld, 22. júní. Þannig að núna er tilvalið að hita upp með því að kynna skáld og leikstjóra kvöldsins stuttlega til leiks.

Gunnlaugur Starri Gylfason leikstýrir fyrra ljóðamyndbandi kvöldsins. Starri leikstýrði einmitt tveimur ljóðamyndbandum fyrir ritstjóra smyglsins þegar ljóðabókin Framtíðin kom út árið 2015. Það fyrra var fyrir Jóhönnu, fyrsta ljóð bókarinnar:

Það seinna var svo fyrir Hungurleikana.

Eyþór Gylfason er fyrra ljóðskáld kvöldsins, en auk þess að semja ljóð opnaði hann nýlega Ketilkaffi í Listasafni Akureyrar með Þórunni Eddu Magnúsdóttur.

En hér flytur hann lærðan pistil um hljómsveitina Gorillaz.

Hér er svo titilljóð bókarinnar Hvítt suð, sem birtist á Menningarsmygli á sínum tíma.

Með seinna ljóðskáldi kvöldsins verður Ljóðamála svo alþjóðleg hátíð. Tékkneska skáldkonan Tereza Riedlbauchová mætir í Grebovka að lesa upp fyrir okkur nokkur ljóð úr sinni nýjustu bók, Blekblettur á Karíbahafinu. Tereza er líka öflugur bókaútgefandi, þýðandi og bókmenntasagnfræðingur, en það er rétt að geta þess sérstaklega að næstnýjasta bókin, Parísardagbókin, er fáanleg í tvímála útgáfu, tékkneskri og enskri, sem Paris Notebook. Hér er svo heimasíða Terezu þar sem má kynna sér höfundinn nánar.

Ilona Gottwaldova þýðir Terezu – og er sérlegur fulltrúi tékkneska hreimsins á Ljóðamála!

Hún hefur áður þýtt þykkt safn íslenskra þjóðsagna á tékknesku, Sjaldan brúkar dauður maður hníf. Það er Jan Hísek sem sá um teikningarnar í þjóðsögusafninu – svona lítur marbendill út á tékknesku – og hér má sjá fleiri myndir eftir hann.

Fyrir utan þau kemur hefðbundið fastagengi Ljóðamála að útsendingunni; Darrell Jónsson sér um upptöku í myndveri MeetFactory, þar sem Arnheiður Eiríksdóttir og Ásgeir H Ingólfsson kynna dagskrána.

Það er Ásgeir H Ingólfsson sem hefur yfirumsjón með þáttaröðinni. Framleiðendur eru Menningarsmygl og Urban Space Epics.

Carl Warwick samdi stef þáttanna út frá broti úr Völuspá.

Styrktaraðilar eru Miðstöð íslenskra bókmennta, Akureyrarbær og Landsbankinn. Sem og auðvitað allir áskrifendur smyglsins!

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.