Það er fátt dramatískara og betra efni í texta en að vera ungur og ástfangin/n og týnd/ur – og einmitt þess vegna er ótrúlegt hversu vondir íslenskir textar hafa verið samdir um akkúrat þetta, með lög sem hafa jafnvel sum slegið í gegn hjá bæði gagnrýnendum og almenningi, og þótt það sé ekkert nýtt er ég ekki frá því að hátindur vondu textanna hjá ungum íslenskum tónlistarmönnum hafi verið fyrir fáeinum árum, textar sem jafnvel verstu sveitaballabönd hefðu skammast sín fyrir – en svona hlutir fara í hringi og nú er gagnsókn næstu kynslóðar á eftir, það eins og landið sé að lyftast og Una Torfa er prýðilegt dæmi um það.

Textarnir fjalla vissulega flestir um að manni sýnist frekar hefðbundnar unglingaástir – en gerir það af dýpt og orðkynngi sem er alltof sjaldgæf í íslenskum dægurlögum.

Í „Fyrrverandi“ eru flóknar og mótsagnakenndar tilfinningar sífellt að rekast á og í „Ekkert að“ er byrjun sem gæti þess vegna verið komin frá Vatnenda-Rósu:

Ég er með holur í hausnum

munn sem segir þér frá

ég er með augu sem leka

tár sem eru full af frá

Það sem einkennir lögin þó er hvernig hún nær að sauma stöku kjarnyrtum erindum eins og þessu við miklu hversdagslegri spjallkenda frásögn, án þess að gefa neinn afslátt af skáldskapnum þar heldur. Allt þetta býr til kunnuglegan og áhrifaríkan sagnaheim, ef þú hefur einhvern tímann verið ástanginn á íslenskum bar þá ertu að fara að tengja. Ljúkum þessu svo með storminum, Þú ert stormur, þar sem öskrað er út í myrkrið, talað í hringi og mögulega svarað þegar hringt er.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson