um Kastljós, Jón Stóra og ritstjóra menn.is
Þegar David Cameron, forsætisráðherra Bretlands og formaður Íhaldsflokksins, lýsti yfir aðdáun sinni á The Smiths brást gítarleikari sveitarinnar, Johnny Marr, ókvæða við og sagði einfaldlega að herra Cameron hefði ekki leyfi til þess að líka við sveitina. Og söngvarinn Morrissey tók í sama streng. Kannski meintu þeir þetta bókstaflega og myndu nota fyrsta tækifæri sem gæfist til að eyða öllum Smiths-lögum útaf tónhlöðu forsætisráðherrans. Eða kannski fannst þeim bara vera holur tónn í skjalli forsetans, sem þrátt fyrir meinta aðdáun á hljómsveitinni hélt áfram að framkvæma stefnu breska Íhaldsflokksins, en gagnrýni á hann var eitt lykilstefa í tónlist og ímynd sveitarinnar á meðan hún starfaði á valdatíð járnfrúnnar Thatcher.
Sem leiðir okkur að fyrri hluta mánudags-Kastljóssins, en það var helgað ansi magnaðri úttekt Jóhannesar Kr. Kristjánssonar á dópneyslu ungmenna. Meðal þess sem þar kom fram var að ólögráða ungar stúlkur, sem skiljanlega hafa lítil fjárráð í dýra neyslu, eru oft háðar sér miklu eldri karlmönnum um dóp og þurfa ósjaldan að sofa hjá þeim fyrir næsta skammt. Hér er brot úr þættinum:
Jóhannes Kr.: „Það er ákveðinni glansmynd brugðið upp af einstaklingum sem eru klárlega með yngri stelpum. Hvað finnst þér um það?“
Vilborg Grétarsdóttir, unglingaráðgjafi Barnavernd Reykjavíkur: „Mér finnst það bara ömurleg þróun. Þegar maður sér í fjölmiðlum að það sé verið að gera þetta að einhverjum spennandi heimi og þetta eru orðnir frægir einstaklingar, innan gæsalappa, og þeir eru upphafnir sem eitthvað flott.
Mér finnst það bara ömurleg þróun. Það er verið að misnota þær … sjálfsmynd þeirra er brotin, þær upplifa sig skítugar, þær eiga mjög erfitt með að komast út úr þessu, því afleiðingarnar eru svo alvarlegar, þær eiga eftir að takast við svo stóran pakka.“
Sumsé: Karlmaður með miklu yngri stelpum, undir lögaldri, upphafinn í fjölmiðlum og grobbar sig af sambandinu? Halló Jón stóri! Og halló Helgi Jean Claessen, sem fannst fjölmiðlarnir ekki sinna Jóns stóra-blætinu sínu nógu vel og ákvað að skrifa heila bók um kappann svo það væri nú örugglega hægt að kynna barnabörnin fyrir honum líka. Að því loknu tók hann sig til og stofnaði vefritið menn.is, sem væri helst hægt að lýsa sem einhvers konar diet-útgáfu af heimssýn Jóns stóra og annarra nútíma steinaldarmanna.
Og nú skrifar þessi sami Helgi afsaplega helgislepjulegan pistil þar sem hann mærir þessi Kastljós-innslög Jóhannesar. Þarna er þó enga iðrun að finna – nema jú, hann er með smá móral að hafa ekki keypt SÁÁ-álfinn síðast þegar honum bauðst hann og lofar að kaupa einn slíkan fyrir helgi. Spurning um að senda Johnny Marr í söluleiðangur?