Flestar myndlistarbækur deila sama gallanum: þær eru of stórar. Of stórar fyrir rúm eða sófa eða hægindastól, of stórar til að fara með á bæjarrölt, á kaffihús eða í almenningsgarð, það er eiginlega bara hægt að lesa þær sitjandi við borð – og hverjum dettur eiginlega í hug að lesa þannig? Nema maður sé á kaffihúsi, auðvitað.
Þess vegna var ofboðslega gaman að villast inn í litla fornbókabúð í Lundúnum, þar sem allar bækur voru á eitt pund – og finna litlar og þægilegar vasabrotsbækur um nokkra helstu listamenn sögunnar. Fyrir utan þann unað að finna eitthvað ódýrt í London, sem er jú ein af þessum borgum heimsins þar sem maður er nánast rukkaður fyrir að anda.
Þetta eru höfrungabækur, Dolphin Art Books, fimmtíu ára gamlar, og bókin mín um Francisco Goya er búin að vera að leysast upp í höndunum á mér á meðan ég fletti henni, síðurnar losna – en um leið þýðir það að sumar myndirnar mætti núna hengja upp á vegg.
Formið er einfalt; 40 síður af texta og svo 80 síður af myndum – samt ekki 80 myndir, sumar taka heila opnu og stundum er svo súmmerað inn á lykilatriði í myndunum, auk þess sem myndin öll er sýnd. Svona eins og maður myndi gera sjálfur á listasafni, nema þá getur maður stillt súmmið sjálfur.
Uppreisnarmaður í fínni stöðu
Ég var nýbúinn að lesa prýðilegt viðtal við Þránd Þórarinsson í Grapevine og það eru líkindi með þeim Goya, hvorugir fundu sig í akademíu síns tíma – Þrándur hætti því kennararnir voru ekki að kenna það sem hann vildi læra og Goya gekk illa að komast í skóla og þær myndir sem hann teiknar í anda akademíu síns tíma eru líflausar, ef marka má mynd hans af Jesú krossfestum í bókinni – hann gerði miklu betri mynd af frelsaranum löngu síðar, að virðist í helli þar sem hann fórnar höndum: hvað eruð þið að hugsa? segir Jesú – en við hvern?
Texti Margherita Abbruzzese snýst töluvert um að rifja upp feril Goya, hvernig hann vann sig upp hjá hirðum Spánarkonungs en átti samt erfitt með sig að birta þá heimssýn sem aðlinum hugnaðist. Það að vinna við hirðina hefur sjálfsagt ekki verið ósvipað því og að vinna á auglýsingastofu í dag, kapítalið finnur leiðir til að þjóðnýta listamenn rétt eins og aðalsfólkið gerði. Goya átti þó alltaf erfitt með þetta fyrirkomulag og skrifaði í einu bréfi: „Það er nánast regla að það er ekki hægt að þróa ímyndunarafl og breytileika í pöntuðum verkum.“
En hversu vel skyldu þeir hvora aðra? Illa, að mati Abbruzzese, sem segir að „Samúð með hinum fátæku, sem verk Goya voru hönnuð til að vekja, síaðist aldrei inn í hugarheim aðalsins. Þannig að án þess að valda þeim óþægindum málaði Goya eins og honum þótti rétt, og skilningsleysi þeirra veitti honum tækifæri til að gera það.“
Við tvær myndana stendur svo að þær hafi verið ætlaðar svefnherbergi prinsins í Aranjuez – og bókarhöfundur bætir við: „Báðar myndirnar innihalda skarpa þjóðfélagsádeilu.“ En einhvern veginn grunar mann samt að prinsinn hafi sofið ágætlega, og spurningin vaknar um aðalsmenn allra tíma: eru þeir svona vitlausir, eða svona klárir? Er fáfræði þeirra mögulega lykillinn af snilld þeirra, þess að þeir halda völdum og áhrifum og ekkert breytist? En samt, frá tímum Goya hefur vissulega margt breyst, þótt sumt sé óþægilega kunnulegt.
Samband listamannsins við þá sem borga honum er kannski sýnilegust í portrett-myndunum, sem eins og Goya játaði eiginlega sjálfur gefa honum sjaldan tækifæri til mikillar sköpunar, þær séu jú gerðar eftir pöntunum. Ein þessara mynda þykir Abbruzzese óvenju vond, en það er mynd af Furstanum af Floriblanca – og sýnir listamanninn sjálfan ósáttan við árangurinn. En þar er ég ósammála bókarhöfundi, þetta er mögulega besta portrettið því Goya leyfir sjálfum sér að laumast inn í smáatriðin – furstinn sjálfur er vissulega hraustur og myndarlegur að sjá (hvernig sem hann leit út í raunveruleikanum) – en bak við hann er einhver aðstoðarmaður skeptískur á svip og til hliðar Goya sjálfur bugaður. Sem er einmitt það sem gerir myndina svona góða, þessi frábær afbygging.
Sama á við um stórt fjölskylduportrett af fjölskyldu Karls IV. Goya veit greinilega hverja má móðga og hverja ekki á þessari 14 manna mynd. Þeir sem eru í forgrunni (og hafa líklegast borgað fyrir myndina) eru eins og eftir pöntun, en það er eitthvað að gerast í aftari röðinni, þar er fólk með svipbrigði sem stangast á við glansmyndina, kannski eru þau öfundsjúk, kannski sjá þau í gegnum kónginn og drottninguna og afbyggja þar með glansmyndina?
Þá er einnig sjálfsmynd af Goya sjálfum í bókinni, hann minnir lítillega á leikarann John C Reilly á myndinni en það er eins og það sé slikja yfir öðru auganu. Mögulega til marks um allt sem hann nær ekki að sjá, sjálfsgagnrýni myndlistarmannsins sem nær ekki að festa allt það á strigann sem hann vill.
Besta stéttaádeila Goya er þó mynd af strákum að halda á hverjum öðrum á háhesti. Þeir eru nokkrir – en í forgrunni er strákur á háhesti sem er glaður og vel klæddur, það ólgar hins vegar í almúgastráknum sem ber hann. Blinda aðalsins mörkuð strax í bernsku.
Blindi gítarleikarinn og skrímslin
Það tók Goya langan tíma að finna sinn stíl þótt hann öðlaðist snemma frama. Hæfileikarnir eru sannarlega til staðar og margar myndirnar góðar að einhverju leyti – en bæði er eins og eitthvað vanti og eins þá er hann aldrei alveg nógu góður í að teikna andlit, þau verða alltaf hálf móðukennd, eins og hann finni ekki kjarnann í viðfangsefnum sínum.
Ein af betri myndunum sem Goya teiknaði á þessum árum var Blindi gítarleikarinn, enda sleppur hann þá við að teikna augun. Myndin var hins vegar furðu forspá, blindur gítarleikari er tákn þess að missir eins skilningarvits efli önnur – og einmitt það gerði Goya á endanum að þeim byltingarkennda málara sem við þekkjum í dag.
Eftir langvinn veikindi missti hann nefnilega heyrnina árið 1792, 46 ára að aldri. Sem virtist gera hann að miklu betri og næmari málara. Það sem gerðist raunar um leið og hann missti heyrnina var að hann uppgötvaði skrímslin – eða þorði altént loksins að teikna þau. Þetta tók þó tíma, það er forvitnilegt milliskeið þar sem manneskjurnar verða einfaldlega hægt og rólega gróteskari, breytast í hálf-skrímsli.
En svo birtist mennskur geithafur umkringdur afmynduðum nornum og eftir það verður myndheimur Goya allt annar og drungalegri. Seinna sjáum við risa nokkurn, furðu mennskan, ganga fram hjá blóðugum völlum. Risinn rennur saman við umhverfið – en við vitum ekki hvert hlutverk hans var. Stríðið er í forgrunni – en kom hann við sögu eða er hann bara vitni af flónsku mannana?
Stríðið nær svo hámarki sínu í 2. maí 1808, afskaplega blóðugri stríðsmynd þar sem blóðþorstinn er í hverju skúmaskoti, lík leynast undir hestum og menn stinga þegar dauða menn á hol. Daginn eftir var svo 3. maí 1808, sem er nafnið á tvíburamynd þessarar. Sem er ein besta mynd Goya og í raun myndin; myndin sem við hugsum flest um þegar við heyrum nafnið Goya.
Hún er í raun ójafnari en margar myndir Goya, en aldrei hefur hann fundið fókusinn betur. Maðurinn í hvítu skyrtunni með uppréttar hendur. Hjálparleysið uppmálað en um leið æðruleysi – maðurinn sem getur ekki annað en borist með vindum sögunnar.
Einna hæst náði list Goya svo þegar að hann málaði sumarbústaðinn sinn með alls kyns veggjaskreytingum. Þar birtist mennski geithafurinn aftur – og myndin ber sama titil og síðast, Hvíldardagur nornanna, en það er eins og þessi geithafur, og þessi endanlega mynd hans, sé skrímslið sem Goya hafi leitað að allan þennan tíma.
Undir lokin er svo eins og Goya geti loksins teiknað hamingjuna – við sjáum loftbelg og svo mynd af fallegri konu, án allrar íróníu, mögulega ástkonu aldraðs Goya. Það er eins og það að við það að höndla skrímslin hafi hann einnig náð að höndla hamingjuna.
Áður hafði hann þó teiknað eina nektarmynd – tvær myndir af Maju nokkurri, Maja klædd og Maja nakin. Það merkilega við nektarmyndina er að loksins þar nær Goya að teikna sannfærandi augu. Næst á eftir fylgir svo myndin Mæjurnar gangandi – og þegar við sjáum þær tvær, kappklæddar í kulda, þá fer maður að velta fyrir sér hvort þetta hafi kannski ekki verið sama Mæjan á myndunum á undan?
En hvað er svo handan bókarinnar? Það er raunar vísbending um það í bókinni, hún birtir af fáeinar af svart-hvítu ætimyndunum (ætimyndir eru sérstök prenttækni) sem Los caprichos samanstendur af, kver sem Goya gaf út og nú fyrst er skrímslunum hleypt út í heiminn. Þetta form hentar Goya miklu betur heldur en málverkin sem eru í forgrunni bókarinnar – nú er fókusinn á smáatriði persónanna og aldrei hefur hann teiknað andlit betur – en landslagið hverfur í skuggann. Smáatriðin eru því í forgrunni hér, ekki í bakgrunninum eins og í flestum málverkum Goya.
Þarna birtist snilld Goya best – sú snilld sem Charles Baudelaire lýsti svo: „Í myndum hans finnum við ástina á því sem ekki er hægt að tjá, tilfinningu fyrir harkalegum andstæðum, fyrir ógnum sem við óttumst öll og andlit sem lífið hefur afbakað í þúsundir einkennilega dýrsleg form. Styrkur Goya er að skapa trúverðug skrímsli. Skrímslin hans eru lifandi, þau snerta okkur. Enginn hefur þorað að gera hið fáránlega mögulegt eins og hann. Allar afbakanir hans, hin dýrslegu og djöfullegu andlit, eru full af mennsku.“
Texti: Ásgeir H Ingólfsson