„Tólf mánuðir voru liðnir og Charles Darnay var orðinn kennari í Englandi, í frönsku og frönskum bókmenntum. Nú til dags hefði hann verið prófessor, í þá daga var hann einkakennari. Hann kenndi ungum mönnum sem höfðu tíma og áhuga á að læra lifandi mál sem talað var um allan heim og reyndi að vekja áhuga þeirra á þekkingu landa sinna og skáldskap.

Þar að auki gat hann skrifað um þessi mál á lýtalausri ensku og haldið fyrirlestra án votts af frönskum hreimi. Í þá daga voru slíkir kennarar ekki auðfundnir. Fyrrum prinsa og verðandi konunga var enn ekki að finna í kennarastétt og engir gjaldþrota aðalsmenn höfðu enn fallið úr höfuðbókum Tellsons og orðið kokkar og smiðir. Þar eð hinn ungi Darnay var kennari sem gerði nemendum sínum námið bæði auðvelt og ánægjulegt og þar að auki afburða þýðandi, sem hafði miklu meira en orðabókarkunnáttu að bjóða, varð hann fljótlega þekktur og eftirsóttur. Þar að auki þekkti hann vel til aðstæðna í föðurlandi sínu, sem sívaxandi áhugi var á, svo með óþrjótandi iðjusemi og þrautseigju, aflaði hann sér góðra tekna.

CharlesDickensHann hafði hvorki búist við gullslegnum gangstéttum, né að hvíla á rósabeði í London. Hefði hann komið þangað með svo upphafnar væntingar, hefði heppnin ekki verið með honum. Hann hafði búist við því að vinna fyrir sér og fann sér vinnu og sinnti henni sem best hann gat. Í því var velgengni hans fólgin. Hluta tíma síns varði hann í Cambridge, þar sem hann kenndi stúdentunum sem nokkurs konar smyglari, færði þeim bannvöru í formi evrópskra tungumála, í stað þess að fara með grísku og latínu í gegnum tollinn. Annars var hann í London.“

Úr Sögu tveggja borga eftir Charles Dickens í þýðingu Þórdísar Bachmann, sem kemur út hjá Uglu í haust.