Ég geng að vellinum og veit ég er að nálgast þegar Bohemians skyrtunum fjölgar. Ég er orðinn virkilega heitur þegar ég sé löggunum fjölga – og tvær þeirra eru á risastórum hestum – með risastórum haug af hestaskít á miðri gangstétt. Hrossinn greinilega óhóflega spennt fyrir leiknum.
Bohemians Prag, litla krúttlega hverfisliðið mitt, er að fara að taka á móti risunum í Sparta Prag. Ég veit að Sparta eru sterkari en ég hef ekki fylgst alveg nógu vel með deildinni hérna til að vita hvort Bohemians á raunhæfan séns. En hvar kaupir maður eiginlega miða? Þetta var skyndiákvörðun – og þetta er auðvitað borgarslagur, ætli það sé uppselt? Ég labba meðfram öllum vellinum í leit að miðasölu, veggirnir eru grænmálaðir í stíl við liðið og maður sér strax að þetta er öllu hrörlegri völlur en voldugur Sparta-völlurinn uppi í Letna. Svo finn ég loks fátæklegan skúr merktum miðum fyrir fjölmiðlamenn – og þótt ég sé einn slíkur er ég ekki með nein skilríki upp á það. Stelpurnar staðfesta að það sé vissulega uppselt – en mig rámaði í að hafa séð tvo stráka að selja miða fyrir utan völlinn hinum megin. Maður treystir slíku rétt svo mátulega – en ég ákveð að láta á það reyna ef verðið er sæmilegt.
Og viti menn, ég finn strákana tvo aftur og miðarnir eru hræódýrir og traustvekjandi – enda flýg ég inn. Miðarnir eru í stæði en ekki sæti og leikurinn er að byrja, ég hef misst af kynningunum en ekki miðjusparkinu.
Og svona ef lesendur eru illa að sér í tékkneskum fótbolta þá skulum við súmmera þetta örsnöggt upp: Sparta Prag eru risarnir og Slavia Prag eru litli risinn, helstu keppinautarnir. Dukla Prag voru risarnir um tíma af því kommúnistarnir elskuðu þá, en nú eru þeir á botninum. Utanbæjarlið eins og Banik Ostrava og Slovan Liberec hafa oft átt öflug lið – og undanfarin ár hefur Viktoria Plzeň frá bjórborginni góðu tekið völdin og unnið flesta titla, Spörtu og Slavia til mikillar gremju. Hins vegar virðast Zbrojovka Brno, fulltrúar höfuðborgar Móravíu, aldrei geta neitt og féllu úr deildinni í fyrra. En ég var að uppgötva að það er til podcast á ensku um þá og mig dauðlangar að hlusta, en segi sjálfum mér að þá væri ég of djúpt sokkinn í fótboltanördismann.
En svo eru það litlu hverfisliðin mín tvö. Um aldamótin bjó ég í Žižkov, þegar Viktoria Žižkov átti sína gullöld, vann bikarinn, henti deildinni frá sér á lokadeginum og sló Rangers út úr Evrópukeppninni. Þetta reyndist auðvitað of gott til að vera satt – og nokkrum fjármálasköndulum síðar hrundi liðið niður deildirnar og hefur verið í neðri deildunum síðan. Þeir eru líka svo litlir að völlurinn þeirra er ennþá hrörlegri en Bohemians völlurinn.
Þegar ég flutti svo aftur til Prag þá flutti ég í Bohemians hverfið, eða svona að útjaðri þess – og hægt og rólega fór ég að íhuga það forboðna, að skipta hreinlega um fótboltalið, að minnsta kosti þangað til Viktoria kæmist aftur upp í efstu deild. Ástæðan var ekki bara nálægðin – í raun er fjarlægðin á vellina tvo ósköp svipuð – heldur einfaldlega sú að Bohemians er eitthvert mest kúl fótboltalið í heimi. Fyrir því eru tvær einfaldar ástæður:
1: Antonín Panenka spilaði með Bohemians. Antonín fokking Panenka! Maðurinn með stórkostlega yfirvaraskeggið sem í fyrstu vítakeppni sögunnar (á stórmóti) vippaði yfir markmann Þjóðverja úr síðustu spyrnunni eins og að drekka vatn. Já, eða frekar eins og að drekka bjór – hann æfði víti reglulega með markmanni Bohemians og þeir veðjuðu ýmist upp á bjór eða súkkulaði. Síðan þá hefur vítið einfaldlega verið nefnt eftir honum – og þótt Pirlo og félagar séu alveg passlega töff þegar þeir leika þetta eftir þá skáka þeir aldrei Panenka. Sem er í ofanálag forseti Bohemians í dag.
2: Fyrir 90 árum fóru Bohemians í keppnisferðalag til Ástralíu og komu til baka með tvær kengúrur sem þeir höfðu fengið af gjöf. Kengúrurnar fengu heimili í dýragarðinum í Prag og eru líklega komnar til kengúruhandanheima núna – en þær lifa þó enn í merki félagsins og öllum varningi þess. Kengúrur eru vissulega allavega – en Bohemians-kengúran er ótvírætt töff.
Orðljóti Skotinn og hálfbert gamalmenni
En leikurinn, hann er byrjaður. Völlurinn tekur um 5000 manns og skiptist upp í fjórar stúkur. Ein er langstærst, mín er líklega næststærst, bak við annað markið, og að mér sýnist sú eina sem selt er í stæði fyrir standandi. Svo eru tvær pínulitlar – og mér sýnist að í annarri af þessum litlu séu allir stuðningsmenn Spörtu, máski 50-100 hræður. Það kemur mér á óvart að þeir séu ekki fleiri – það er jú minna en hálftíma rúntur hingað með sporvagni frá höfuðstöðvum Spörtu, en mögulega fá þeir bara ekki fleiri miða.
Leikurinn er frekar daufur framan af og aðalskemmtunin er orðljótur Skoti við hliðina á mér. Hann er nánast skitsófrenísk fótboltabulla – ræðir afskaplega yfirvegaður við félagan á milli þess sem hann kallar óprenthæf blótsyrði inná völlinn, eins og það sé orðljótt vélmenni sem taki völdin af honum stöku sinnum. Þegar félagi hans spyr hann hvort hann hyggist kaupa ársmiða þá tekur hann fram að fyrir honum sé bara eitt lið – en þessir fallegu búningar Bohemians hreyfi við honum. Enda grænir og hvít-röndóttir eins og hæðir Skotlands, afsakið, ég meina eins og búningar Glasgow Celtic. Sem er sannarlega ekki algengt litaval á fótboltabúningum. Fremst í stúkunni raða svo nokkrir pjakkar sér upp á grindverkið á meðan gömul kona selur leikskrár.
Fyrri hálfleikurinn er jafn á hálf einkennilegan hátt – Bohemians berjast og vilja þetta miklu meira, en Sparta eru augljóslega betri í fótbolta. En þeir eru samt ekkert mikið að sýna það. Ganverski framherjinn Benjamin Tetteh hjá Spörtu er eini leikmaðurinn sem er eitthvað að heilla mig – þegar hann er nálægt boltanum vantar oftast bara herslumuninn að eitthvað gerist. En það gerist ósköp lítið. Röðin í bjórinn er óralöng – það er fullkomlega galið bisnessmódel að hafa bara tvær manneskjur í að skenkja allri þessari stúku bjór – en ég læt mig hafa það að fara í röðina í hálfleik, þó ekki sé nema til þess að eignast svona sniðugt endurnýtanlegt kengúrubjórglas.
Ég horfi á fyrstu fimm mínútur seinni hálfleiks úr bjórröðinni og líst ekkert á blikuna. Sparta ætla klárlega að taka sig saman í andlitinu og sækja alveg sæmilega stíft. Ég er samt alltaf hálf ringlaður þegar ég fæ pláss aftan við markið á fótboltaleik – hef alltaf á tilfinningunni að kannski taki ég betur eftir sóknunum á markið nær mér. Sóknirnar hinum megin eru svo langt í burtu að hugurinn fer örugglega frekar að reika þegar … og fjandinn. Aukaspyrna. Sparta er búið að eiga tvö stórhættuleg færi á síðustu tveimur mínútum og núna er aukaspyrna við markteig, þetta er nánast eins og víti fyrir hann Spartverjann Josef Šural. Markvörður Bohemians hafði líka virkað hálf óöruggur á mig – og hann stendur grafkyrr á meðan boltinn þýtur fram hjá.
En þá fyrst hefst hasarinn. Ég var ekki viss fyrr en þarna að aðdáendur Sparta væru allir í pínulitlu stúkunni í fjarskanum – en það er ekki nóg með að þeir tryllist allir, heldur fleygja þeir einum flugeldi á völlinn og aldraður aðdáandi stekkur inn á völlinn og tekur nokkur dansspor, ber að ofan, við hliðarlínuna áður en öryggisverðir mæta askvaðandi og stoppa partíið.
Eftir þetta hægist aðeins á sóknum Sparta en þeir hafa áfram stjórn á leiknum – það er eins og bæði lið hafi sætt sig við að þetta séu örlögin, Sparta eru ekki nógu góðir um þessar mundir til að rústa neinum – en þeir eru alltaf að fara að vinna sæmilega þægilega 1-0 skyldusigra gegn litla Bohemians. Eitthvað sem allir geta verið sæmilega sáttir við.
En síðustu tíu mínúturnar taka hins vegar græn-hvítu kengúrurnar við sér – og þegar þrjár mínútur lifa af leiknum klikkar rangstöðuvörn Spörtu og Jan Záviška þarf ekki að hafa mikið fyrir því að setja boltann í nærhornið. Menn stökkva á fætur og klappa – en auðvitað eru engin ólæti í þetta skiptið, enda við Bohemians-menn auðvitað ekki sömu barbararnir og bölvaðir Spartverjarnir.
Ég verð hins vegar var við að ég er alls ekki eini útlendingurinn á leiknum, eins og mig grunaði hálfpartinn fyrir fram, enda völlurinn órafjarri túristagildrum borgarinnar. Það er töluvert um Breta, einhverjir Hollendingar og Þjóðverjar – og einn þeirra er í St. Pauli bol, enda þessi tvö vinstrisinnuðustu fótboltalið Evrópu vinaklúbbar.
Svo flautar dómarinn af – kengúrurnar okkar náðu jafntefli gegn risanum og ég labba heim ágætlega sáttur með kengúrubjórglasið í bakpokanum.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson