„Það er 1928 elskan, allt er mögulegt!“

Og það er allt mögulegt á litlu leiksviði í Prag, í D21 leikhúsinu á Zagreb-götu (Záhřebská), þar sem útlagaleikhópurinn Blood, Love and Rhetoric flytur söngleiki byggða á verkum H.P. Lovecraft. Allt á ensku, öðru máli þessarar miklu expata-borgar.

Við erum stödd á Arkham-hælinu á Vesturströnd Bandaríkjanna árið 1928 – og vísunin er ekki í samnefnt hæli úr ævintýrum Leðurblökumannsins heldur í bæinn Arkham, uppskáldaðan bæ í Massachussets sem Lovecraft bjó til. Þangað mætir alríkislögreglumaðurinn Ondrej Jablonski að rannsaka dularfulla atburði – en það sem gerir þetta geðveikrahæli óvenjulegt er helst tvennt: órar allra vistmanna virðast vera beint upp úr sögum Lovecrafts og svo aðferðirnar sem læknarnir beita, en þeir beita dramameðferð á sjúklingana, sem virkar þannig að fyrst eru þeir dáleiddir og svo endurleika þeir aftur þá trámatísku viðburði sem orsökuðu geðveiki þeirra – með hjálp læknaliðsins og annarra vistmanna, sem leika önnur hlutverk eftir þörfum. Á kantinum er svo nunnan Fanny Fiddler sem leiðir húsbandið, sem tekur reglulega lagið þegar við á.

Þetta upplegg skapar ótrúlegt frelsi fyrir leikhópinn – það er hægt að gera bókstaflega allt, og tæknilega séð eru allar persónurnar að leika, eða eru þau kannski stundum að segja sannleikann með meintri lyginni?

Þá eru ótal vísanir í bókmenntasögu tímabilsins og meðal starfsfólks eru til dæmis þeir félagar Dr. Gatsby og Federico Garcia Lorca. Þá koma fram vísbendingar um að ísjakar heimsins hafi verið alsaklausir af því að sökkva Titanic, þar hafi mun vafasamari neðansjávarskrímsli úr hugarheimum Lovecrafts verið að verki.

Þetta er hugvitsamleg og einkar skemmtileg sýning – og snjöll leið til þess að leika sér frjálslega með höfundaverk gamla hryllingsmeistarans. Og þetta er bara fyrsta verkið í þríleik, allar sýningarnar kallast A Lovecraft Musical – en undirtitlarnir eru Devil‘s Reef, The Call of Cthulhu og Dreamland og verða sýnd í þessu litla Pragverska leikhúsi í vetur.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson