um Fásinnu eftir Horacio Castellanos Moya í þýðingu Hermanns Stefánssonar
Stundum nær texti áhrifamætti sínum ekki með gæðunum, heldur með magninu. Sérstaklega ef þú þarft að lúslesa textann eða vinna á einhvern hátt með hann. Ég fékk nasaþefinn af þessu á menntaskólaárunum þegar við vorum látin gera rannsókn sem fólst í að fara í yngri bekkina og leggja fyrir þá einfalda spurningalista; láta þau skrifa niður öll neikvæð orð sem þeim datt í hug um karlkynið og öll neikvæð orð sem þeim datt í hug um kvenkynið, í sitt hvorn dálkinn.
Blótsyrði hafa sjaldan haft mikil áhrif á mig, altént ekki svona án samhengis, og mér fannst verkefnið drepleiðinlegt og tilgangslaust framan af. En á einhverjum tímapunkti, þegar ég var að vinna úr niðurstöðunum, fór magnið að segja til sín – maður fór að tengja við orðin öðruvísi, hugsa: hvaðan kemur þetta orð, hver er upprunalega hugsunin á bak við það – og af hverju kunna sextán ára strákar þau öll?
Þetta verkefni er auðvitað barnaleikur miðað við verkefnið sem aðalpersóna Fásinnu þarf að glíma við; að prófarkalesa 1100 blaðsíðna skýrslu um þjóðarmorð á frumbyggjum í ónefndu Mið-Ameríku ríki – sem er þó samkvæmt öllum vísbendingum Gvatemala. Sá texti er sannarlega magnaður – bæði að sögn allra sem hafa lesið og miðað við þau textabrot sem aðalpersónan krotar hjá sér og deilir með okkur í bókinni.
Þessar frásagnir eru sannarlega hrollvekjandi – en við upplifum samt aðallega hvaða áhrif þetta hefur á hann, aðalpersónuna. Hvernig hann endar í hnipri á skrifstofunni í eitt skipti í ímynduðum hnífabardaga, hvernig hann verður sífellt ofsóknarbrjálaðri, oftast af misskilningi, þótt það sé ekki þar með sagt að hann hafi ekki ástæðu til þónokkurar paranoju.
Hann fantaserar á einum stað um mögulega skáldsögu upp úr skýrslunni, eitthvað sem hann er samt fljótur að afskrifa – hann sé enginn skáldsagnahöfundur. En þetta lýsir samt þörf hans fyrir að ganga inn í söguna, en um leið ótta hans við það. Ótta sem er þörfinni almennt yfirsterkari, þegar hann áttar sig á því að ein aðalpersóna skýrslunnar vinnur í sömu byggingu afþakkar hann að vera kynntur fyrir henni, hann forðast að tala við hana, hann forðast harminn, að horfast beint í augu við persónurnar sem hann prófarkales.
Þannig er þessi skáldsaga um fjarlægðina, fjarlægðina við annað fólk, fjarlægðina frá okkur sjálfum, sem og því sem við erum að vinna við. Stundum er fjarlægðin okkur lífsnauðsynleg – eða við höldum það allavega. Aðalpersónan er svo fjarlæg að við vitum ekki hvað hún heitir og við áttum okkur illa á forsögu persónunnar, ástæða hans fyrir að yfirgefa heimaland sitt hljómar í besta falli eins og hálfsannleikur.
Þá er hann bæði flinkur með konur og algerlega vonlaus með konur – að því leyti að hann kemst á séns með þeim konum sem hann þráir, en klúðrar því svo algjörlega þar sem hann virðist algerlega ófær um að tengja við þær þegar þær verða óþægilega raunverulegar.
Hversdagshugleysi og þjóðarmorð
Aðalpersónan minnir raunar ótrúlega mikið á aðalpersónu sænsku gamanmyndarinnar The Square, að því er virðist sjálfsöruggur kvennamaður sem sömuleiðis virðist samt endalaust koma sér í vandræði með hversdagsheigulshætti sínum. Núna er hann bara í annarri aðstöðu, að lesa skýrslu sem hljóma eins og andlegur arftaki lykilverks þjóðarmorðabókmennta veraldarinnar, Örstutt frásögn af eyðingu Indíalanda (sem ég skrifaði einu sinni um hér) eftir Las Casas.
En sagan sjálf fjallar samt frekar um okkur flest – okkur flest sem komumst aðeins í tæri við mannkynssöguna úr fjarlægð eða á ská. Við hittum fólkið sem lifði atburðina, göngum niður söguleg stræti löngu eftir að sögunni lauk, lesum fréttirnar, horfum á sögulegu bíómyndirnar og lesum sagnfræðidoðranta. En fæst lifum við beinlínis atburði sem enda í mannkynssögunni – en samt erum við alltaf að setja þessa atburði í samhengi við okkur sjálf, okkar samtíma, okkar aðstæður, okkar heimaslóðir. Við getum verið prófarkalesarar, við getum kennt skýrsluna, greint hana, dæmt hana – en við erum fæst í henni.
Þannig er þetta í raun bók um það hvað starf okkar hefur að gera með heiminn. Hvernig við tökum þátt, alla þessa litlu snertifleti. Bókin steypir okkur norður-Evrópubúunum svo beina leið inní drama fjarlægrar heimsálfu sem fréttatímar okkar heimshluta eru oft fáorðir um. Það er svo skemmtilegur kontrast að lesa kaflann þar sem norður-Evrópa (nánar tiltekið Þýskaland) er gerð exótísk á sama hátt og við erum vön að sjá sjálf Mið-Ameríku.
Bókin er fantavel skrifuð þýdd og um margt mögnuð lesning – en aðalpersóna hennar dregur hana þó dálítið niður. Á einhverjum tímapunkti hættir maður að tengja almennilega við hana, mögulega er hann of mikill durgur og of mikil gunga. Flestar gjörðir hans í gegnum bókina eru í raun vel skiljanlegar, einar og sér. Við getum flest verið óttalega eigingjörn og sjálfhverf stundum – samanber báða hans ástarfundi – og við getum líka ímyndað okkur allt hið versta um hvað annað fólk vill okkur. En við erum fæst þannig alltaf. Eigingirnin skarast hjá flestum á við samkennd og ofsóknaræðið við skarpa hugsun. Og mig grunar að margbrotnari aðalpersóna hefði varpað skarpara ljósi á þetta brotna samfélag sem sagan lýsir og þeim hörmungum sem það hefur gengið í gegnum. Ég held nefnilega að frásagnaraðferðin sem slík gæti vel megnað það – en við fáum á endanum of þægilega fjarlægð í gegnum prófarkalesarann dáðlausa. Dáðleysi hans verður okkur fjarvistarsönnun frá því að takast almennilega á við erindi sögunnar. Nema það sé einmitt erindið – að sýna okkur hvaða fjarvistarsönnun við notum sjálf. En um leið varpar Moya ábyrgðinni lymskulega yfir á lesandann, því þessi rannsóknarspurning bókarinnar er ekki hvernig skrifa skuli um þjóðarmorð, heldur hvernig lesa skuli bók um þjóðarmorð.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson