Islenskt menntakerfi er í vörn. Mikið er rætt um fjársvelti, kennara sem þurfa að vinna alltof mikið og misjafna aðstöðu nemenda. Þá hafa margir efasemdir um að skertur námstimi í framhaldsskólum og ríkisháskóli með himinhá skólagjöld sé efnileg framtiðarsýn þó teikn séu á lofti um slikt. Það er verið að berjast á móti þessum hugmyndum en skólafólk hefur verið neytt í vörn. Það er kominn tími á tilraun tilþess að byggja upp, fara í sókn.
Fyrir þá sókn talaði ég við Marjöttu ísberg grunnskólakennara, Ingólf Gíslason, framhaldsskólakennara og Gunnar Karlsson háskólaprófessor. Auk þess las ég viðtal við Ólaf Stefánsson, grein eftir Jón Kalman Stefánsson og bók eftir Andra Snæ Magnason. Raunar var það landsliðsfyrirliðinn Ólafur sem átti sendinguna sem kom þessari sókn af stað. I viðtali í febrúarhefti Mannlífs segir hann meðal annars: „Fegurðin, fágunin og róin hafa gleymst. Okkar nýi guð er hagvöxturinn. Hann er alfa og ómega okkar veruleika. Og hver er næring hagvaxtarins? Hraði og sýndarþarfir. Eina leiðin sem ég sé út úr þessari svikamyllu er í gegnum menntakerfið. Margt gott er í gangi þar en líka margt sem vantar, að ég tel. Strax í grunnskóla myndi ég vilja sjá miklu meiri heimspeki, meiri sálfræði, þ.e. aukna þekkingu á eigin tilfinningum, aukna styrkingu sjálfsmyndar. Eg myndi vilja sjá meiri bókmenntahvatningu, listasögu, hugleiðslu, hlutlausa trúarbragðafræði o.fi. Það athyglisverðasta, að mér finnst, er þó hversu lítið grunnskólar þjálfa skilningarvit krakkanna. Allt í kringum okkur er heimur lita, lykta, tóna, áferðar. Skólaárin, 6 til 15 ára sem eiga að kenna okkur að dýpka veruleikann og njóta, breyta í staðinn litríku, djúpu, opnu, kreatífu, tæru barninu yfir í svarthvíta Anthem- (Ayn Rand)hópmónótónhugsandi, passífa, feimna, óörugga veru. Eftir grunnskólann eigum við að vera heil manneskja sem hefur lært að læra og er tilbúin að takast á við eigin drauma. Ekki drauma foreldra og ekki drauma þjóðfélagsins.”
Allir steyptir í sama bekk
Marjatta ísberg fæddist í Finnlandi en hefur lengi kennt við íslenska grunnskóla. Hún gengst fúslega við því að hafa sínar skoðanir á menntamálum: „Ég er svona eins og Kristinn H. Gunnarsson, ég er alltaf í andstöðu, það er svo gott að nöldra!” Hún hefur sitthvað að athuga við þá stefnu að öllum sé skipt tilviljunakennt í bekk, óháð getu og áhugamálum. Talað er um skóla án aðgreiningar, fallegt slagorð sem Marjatta telur ekki ganga upp. „Þetta leiðir til þess að það er enginn vinnufriður og minnihluti tímans fer í nám. Við erum að sóa hæfileikum þeirra sem eru vel að sér og það græðir enginn á þessu. Þetta er ómögulegt verkefni fyrir kennara í stórum bekkjum.” Þrátt fyrir að margir séu á sama máli þá heyrist fátt, hún líkir þessu við bókstafstrúarsamfélög: „Það þorir enginn að mæla móti kenningunni af ótta við að vera úthrópaður. Eg ræddi við mína kollega og yfirgnæfandi meirihluti þeirra er óánægður. Ég spurði: af hverju segir enginn neitt upphátt? Svarið? Ef einhver segir að það sé ómögulegt að kenna við þessar kringumstæður þá fær hann á sig þann stimpil að vera lélegur kennari.”
Henni finnst merkilegt hversu baráttuþrek íslenskra kennara er þó mikið þrátt fyrir allt og segir þá sem endast þar einfaldlega hetjur. „En mér hefur alltaf fundist að kennarar séu í vörn, að verja heiður sinn. Heima í Finnlandi var alltaf borin virðing fyrir kennurum, það var sýslumaður, prestur, apótekari og kennari.”
En hver er hennar aðferð? „Ég reyni að fá nemendur mína til að nýta tímann sinn í skólanum sem best, læra sjálfsaga og uppgötva að menntun hefur gildi og maður getur ekki orðið menntaður nema að hafa eigin frumkvæði og leita að upplýsingum og reyna að melta þær. Ég er ekki bara að tala um bókalærdóm, það er það sem er innra með manni sem skiptir máli, að sjálfsmyndin sé góð, að þú sért góður félagi og treystir sjálfum þér og sért ánægður með sjálfan þig. Ef þú ert ánægður með sjálfan þig þá ertu góður félagi hinna. En þegar maður hlustar á krakka þá sér maður að þó vissulega séu margir sem eiga mjög gott heimili og gott atlæti og góða foreldra þá eru alltof margir sem engin raunverulega sinnir heima, engin les fyrir þau og talar við þau og þau hafa svo fátæklegan orðaforða að það er alveg skelfilegt. En það talar engin heima. Ég vorkenni afskaplega mörgum íslenskum börnum. Eg er ekki einu sinni trúuð en ég lærði Biblíuna mína nógu vel til að sum orð Jesú sitji í mér, ég vildi helst bjarga öllum.”
Framhaldsskólinn á að vera meira einsog leikskóli
í grein í Skólavörðunni í ágúst 2004 ræðir Jón Kalman Stefánsson rithöfundur um ástríðufullan kennara sem hafi gert kraftaverk. „Slíkir kennarar eru fjársjóður, þeir eru ómetanlegir, ef það væri sama bilun í skólasamfélaginu og í fótboltaheiminum væru þeir eins og Beckham, Figo og Eiður Smári; skólarnir myndu bjóða fúlgur í þá.”
Kennarinn kenndi einmitt bókmenntir og nýlega var Jóni Kalmani veitt íslensku bókmenntaverðlaunin. I einhverri vísindaferðinni hafði samnemandi sagt mér nokkurn veginn sömu sögu af Jóni Kalmani sjálfum, sem kenndi honum til skamms tíma í framhaldsskóla og ég veit af öðrum nemanda Jóns sem hefur fengið bókmenntaverðlaun. Góðir kennarar geta skilað okkur svo margfalt meiri verðmætum og vegsemdum en nokkur nefnd eða nokkur námsskrá.
Ingólfur Gíslason, stærðfræðikennari í Verzlunarskólanum er sammmála um mikilvægi kennarans. „Við getum endalaust rætt um kerfið sjálft, hvort það er þrjú ár eða fjögur, bekkjakerfi eða áfangakerfi, hvað eigi að vera skylda og hvað ekki. En burtséð frá því væri hægt að ná mestum árangri með því að beina athyglinni að kennurunum, því það sem skiptir mestu máli þegar allt kemur til alls er hvað gerist í kennslustofunni. Það sem myndi gefa langbestan árangur væri að efla kennarana, efla menntun þeirra og mennta þá mun betur. Auka vald kennara á kostnað námsskráarinnar en til þess þarf að mennta þá, því ef þeim er gefið aukið vald verða þeir að valda því.”
Hann var þó sjálfur byrjaður að kenna áður en hann tók kennsluréttindin og telur því fylgja ákveðnir kostir. „Það er erfiðara fyrir nemendur sem hafa ekkert kennt að læra kenna án þess að hafa reynt það á eigin skinni því þeir vita lítið um hver vandamálin eru. Þá eru þetta bara einhverjar kenningar sem manni finnst ekkert endilega vera neitt relevant. En maður sér frekar hvað skiptir máli ef maður hefur reynt það á eigin skinni.”
Það getur verið erfitt fyrir kennara að mæta inní skólastofu fulla af syfjulegum áhugalitlum andlitum. En það er verkefni til að takast á við. „Ég kem að kennslunni með það fyrir augum að hjálpa nemendum sem mest að læra á þeim stað sem þeir eru. Margir hugsa þegar þeir eru byrja í þessu starfi hvað nemendur séu lélegir eða illa undirbúnir eða leiðinlegir eða áhugalausir og það verður fókus kennarans. Það er auðvitað mjög erfitt að hugsa ekkert um þessa hluti. En það hefur reynst mér afar gagnlegt að snúa þessu algjörlega við, ég verð einfaldlega að gera eins gott úr þessu og hægt er. Hins vegar er mín heimspeki eitt og námsskráin, sem er ákveðin af yfirvöldum, annað. Hún veldur því að ég hef ég í raun ekki frelsi til að praktísera mína heimspeki eins og ég vildi. Námsskráin í stærðfræði inniheldur mjög bein fyrirmæli um það nákvæmlega hvað á að kenna. Það er búið að raða inní áfanga að það eigi að tala um ákveðin hugtök og efnisatriði, í rauninni alltof miklu til þess að það sé hægt að fara eitthvað af viti í eitt né neitt. Þannig að þetta endar í einhverju kapphlaupi, kapphlaupi um að dæla út úr sér einhverjum hugtökum sem nemendur ná svo fæstir almennilega. Það væri mikil framför að skera niður skilgreint efni. Því það er ekki efnið sjálft sem skiptir máli heldur að það sé eitthvað raunverulegt á bak við það.”
En hvernig er ósk hans um framtíðina? „Hún er sú er að kennarar fái að ákveða meira hvað þeir gera – og að nemendur fái líka að ráða miklu meira hvað þeir gera, því þetta er alltof niðurnjörvað eins og þetta er í dag. Mín draumsýn er í raun sú að framhaldsskólar og grunnskólar líkist meira leiksskólum eða því sem maður þekkir úr doktorsnámi og framhaldsnámi, málstofum og frjálsu námi. Að nemendur séu meira að læra fyrir sig, það sem þeir vilja gera – og að kennarar hjálpi þeim eins og þeir geta.”
Það er þó ekki bara mótstaða frá kennsluskrám sem standa í vegi fyrir óhefðbundinni kennslu. Nemendurnir vita oft ekkert hvernig þeir eiga að bregðast við. „Þeir eru náttúrulega mjög vanir að fá þetta eins og þeir eru vanir í grunnskólum og flestum framhaldsskólum. Þeir eru mjög miðaðir út á það séu próf og þeir vilja oft bara fá að vita það sem hjálpar þeim að ganga vel á prófinu. Sem er eðlilegt af því að prófin hafa í raun alltof mikið vægi. Þessi hefðbundnu próf, ég myndi vilja henda þeim út í hafsauga. Það er hægt að meta nemendur á marga vegu, með verkefnavinnu, fyrirlestrum, kynningum og öðru. Það fyndna við þetta er að kennarar vita alltaf fyrir fram hvernig nemendum á eftir að ganga í prófi. Með því að vera í samtali og samræðum við nemendur þá veit kennari alveg hvernig nemendanum mun ganga. Þessi próf eru í raun bara til að fá einhvern hlutlausan stimpil á einkunnina – en eru í rauninni algjört feik.”
Hlllur fullar af óunnum hugsunum
Í bók sinni, Draumalandið: Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð, ræðir Andri Snær Magnason mikilvægi þess að finna upp hjólið sjálfur.
„Í seinni tíð er oft sagt að menntun eigi að undirbúa ungt fólk undir „atvinnulífið”; því fyrr sem krakkar komist út í „atvinnulífið”, því betra. Oft er líka talað um lítinn áhuga barna og unglinga á vísindum og að ungt fólk skili sér ekki í raungreinanar. Það gæti stafað af því að krökkum er ekki komið í samband við hina sjálfsprottnu þekkingarleit og þau skapandi ferli sem liggja á bak við vísindalega hugsun. Menn safna þykku lagi af staðreyndum en geta ekki beitt þeim á veruleikann og taka aldrei beinlínis skrefið. Menn gleyma því að vísindin voru brennandi og risavaxnar spurningar sem var svarað en ekki svör sem voru lærð. Vísindi, heimspeki og listir voru greinar af sama meiði en ekki aðgreindar andstæður. „Það er óþarfi að vera alltaf að finna upp hjólið” er algengur frasi. Kannski hefur maður þvert á móti of sjaldan fundið upp hjólið.”
Gunnar Karlsson sagnfræði-prófessor við HÍ talar einnig um þetta, að kenna aðferðina ekki síður en innihaldið. „Ég hef talað fyrir miklu meiri starfsmenntun, í sagnfræðinámi að minnsta kosti. Mér finnst að við ættum að líta miklu meira á að við séum að mennta fólk til starfa, við séum að gera það að góðum sagnfræðingum ekki síður en að kenna þeim sagnfræði. Reyna að vera ekki jafn akademísk og við erum sífellt að reyna.”
Hann telur háskólasamfélagið vera menningu – menningu sem beri að rækta þannig að nemendur læri menninguna af kennurunum. „Ég hef lengi haft áhuga á því að gera háskólakennslu á einhvern hátt betri. Ég sagði einu sinni fyrir mörgum árum að það ætti ekki að kenna háskólanemum neina sérstaka kennslufræði heldur ættu kennslufræðingarnir að sitja yfir okkur kennurunum og passa að við kenndum vel og þá myndum við kenna fólki að kenna vel og það myndi læra það af okkur. Kennsla er menning sem að lærist í gegnum kennslu, í gegnum góða siði. Eg held að við kennararnir tölum alltof lítið saman um kennsluna. Nemendur tala líka of lítið um hana við okkur, það virðist ríkja ákveðið vonleysi um að það sé hægt að koma einhverju góðu til leiðar. Eg get nefnt sem dæmi kennslukannanir sem stúdentar hafa tækifæri á að taka, það er mjög lítil þátttaka í þeim sem sýnir kannski ekki fyrst og fremst áhugaleysi á því að fá góða kennslu heldur vonleysi um að þeir bæti þessa kennslumenningu i heild með því að láta sig þetta varða.”
En hvernig telur Gunnar að best sé kennt? „Að fólk læri á því að uppgötva sjálft og að gera sjálft og þjálfa sig. Sem nemandi var ég hér i háskóla og sat undir miklum fyrirlestrum og kom út úr háskóla með mjög rótgróna vantrú á fyrirlestraforminu. Ég stóð mig að því í háskóla að sitja í tímum og skrifa skilvíslega upp eftir prófessornum það sem hann sagði en að vera að hugsa eitthvað allt annað á meðan. Þannig að það var farinn að myndast bein ósjálfráð leið frá því að heyra og skrifa eins og þegar maður lærir að vélrita. Þessi reynsla mín féll mjög vel við þá kennslufræði sem var boðuð í faginu, kennslufræðinni, en það er allur gangur á því hvernig manni hefur tekist að halda þessari stefnu uppi. Satt að segja er ekkert jafn auðvelt í háskólakennslu og að tala. Öðruvísi kennsla kostar bæði óvissu um hvern einasta tíma og það krefst klókinda sem maður þarf ekkert að hafa frammi þegar maður heldur fyrirlestur. Þess vegna hefur þetta fyrirlestrarform tilhneigingu til þess að verða lífsseigt.”
Hann telur kennslu og rannsóknir kennara ekki styðja nógu vel við hvort annað. „Mér finnst að það sé grunnhugmyndin að baki háskóla – að maður rannsaki til að kenna og kenni til að rannsaka – þessir tveir meginþættir eiga að vinna hvor með öðrum eins og þegar maður þvær á sér hendurnar, vinstri með hægri og hægri með vinstri. Hann er óhollur, þessi klofningur á milli kennslu og rannsókna sem er því miður til staðar.
Ég held að okkar mannvísindanám eigi möguleika á að vera miklu rannsóknartengdara frá byrjun. Það ættu að vera meiri möguleikar til þess að nýta kennsluundirbúninginn til þess að hann komi að gagni í rannsóknarundirbúniningi og maður geti nýtt rannsóknirnar þannig að þær komi að gagni í kennslu. Kenna ekki ofsalega lengi það sama, vera að brjóta landið sjálfur fyrir sjálfan sig á meðan maður er að kenna það. Til þess að þetta gangi verulega vel þá þyrfti kennsluskyldan að vera heldur minni. Þegar ég gerði mest af þessu þegar ég var yngri þá vildu safnast fyrir hálfunnar og tæplega hálfunnar rannsóknir sem ég hafði byrjað að hreyfa við vegna þess að ég var að kenna það og þetta er hér upp í efstu hillu í löngum röðum”, segir Gunnar og bendir á þónokkra hillumetra á skrifstofunni af möppum sem hann vonast til þess að fá tækifæri til þess að fullvinna í framtíðinni. En slíkir hillumetrar eru sjálfsagt víða minnisvarðar um óskilvirkt menntakerfi.
Gerum alla daga að tyllidögum menntunar
Við ræðum um menntun á tyllidögum. Það eru allir sammála um gildi hennar – í orði. Á borði er reyndin önnur, um það vitna gjörðir flestallra borgar- og sveitarstjórna sem ég minnist. Ég skil raunar ágætlega afstöðu þess yfirvalds sem hefur unnið eða vill vinna skemmdarverk á íslenska menntakerfinu. Þau fóru í gegnum sama eða svipað menntakerfi og ég og hafa ágætis ástæður til þess að véfengja það og vilja leggja peninginn í annað. Auðvitað skilja flestir sem fullorðnar manneskjur að ástæðan fyrir öllum vondu kennurunum og dauðyflislega námsefninu sem varð á vegi manns var fjársvelti sem veitti kennurum og skólafólki ekki möguleika á að gera nærri jafn vel við börnin og geta þess bauð þeim, auk þess sem ófáir vondir kennarar voru nánast órekanlegir á meðan aðrir betri þoldu illa við í vondu kerfi. Eða urðu samdauna. Við vitum þetta en eftir situr í minninu allt hið vonda og við missum trúna og menntun breytist í eitthvað sem við tölum vel um en forðumst þess á milli að hugsa um af einhverri alvöru. Við erum föst í vítahring gallaðs menntakerfis því öll erum við afurðir þess.
Vítahringirnir eru víða. Veturinn sem ég kenndi í framhaldsskóla norður í landi var afar eftirminnilegur en um leið vafalítið einn sá erfiðasti sem ég hef upplifað. Þegar maður barmaði sér var þó svarið venjulega það sama – þetta verður skárra næsta ár þegar maður er búinn að koma sér upp myndalegu glósusafhi og getur stigið sama dansinn aftur. Jón Kalman Stefánsson lýsir svipaðri upplifun í áðurnefhdri Skólavörðugrein og við skulum leyfa nýkrýndum íslandsmeistara í bókmenntum að eiga lokaorðið:
„Þetta er blíð og lokkandi rödd óvinarins, endurtekningarinnar. Hún svæfir kennarann, kæfir glóðina, starfið verður eins og hver önnur færibandavinna, námsefnið pakki sem kennarinn þarf að afhenda nemendum, ekki samvinna, ekki lífræn heild, ekki líf, engin glóð. Og þá dofnar yfir starfinu, bestu stundirnar spjallið á kennarastofunni og allt er komið í hring; einu sinni var nemandi í barnaskóla sem sagði að frímínúturnar væri það skemmtilegasta við skólann. Þannig eigum við ekki að lifa, það á að vera glóð, frjómagn, því þá, en einungis þá, getum við breytt heiminum, gert hann að betri stað.”
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.
Birtist upphaflega í Stúdentablaðinu í október 2006