Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum lauk um helgina – fyrstu stóru kvikmyndahátíðinni sem haldin var í bíó síðan Berlinale lauk, sökum kófsins mikla sem frestaði Cannes, Karlovy Vary og fleiri stórum hátíðum, eða færði á netið.

Það gæti vissulega orðið langt þangað til við fáum að sjá megnið af þessum myndum – en sigurmyndin Nomadland er þó á leiðinni á RIFF. En til þess að gefa ykkur reykinn af réttunum ákváðum við að búa til spilunarlista með stiklum úr öllum verðlaunamyndunum.

Enskur texti fylgir víðast – og stundum er stiklan ekki komin í umferð, og þá þurfa atriði úr myndunum eða kitlur að duga. En það er eitthvað hægt að skoða úr öllum verðlaunamyndum aðalkeppninnar.

Fyrst sjáum við stiklu úr Sólarbörnunum, Khorshīd, íranskri mynd sem Rouhollah Zamani fékk verðlaun fyrir sem besti ungli leikari, en hann leikur þar hinn tólf ára götustrák Ali sem er í fjársjóðsleit.

Sérstök verðlaun dómnefndar hlaut myndin Kæru félagar (Dear Comrades / Dorogie tovarischi) um fjöldamorð sovésku ríkisstjórnarinnar í borginni Novocherkassk árið 1962 í kjölfar harðra mótmæla. Myndinni er leikstýrt af hinum gamalreynda Andrei Konchalovsky, sem varð nýlega 83 ára gamall og hefur leikstýrt ýmist í Rússlandi og Bandaríkjunum í gegnum tíðina. Heima fyrir leikstýrði hann kvikmyndaaðlögun að Vanja frænda og fór svo til Hollywood og gerði spennutryllinn Runaway Train og harðhausamyndina Tango & Cash. Hann var fyrst með mynd á Feneyjum fyrir 55 árum og hefur unnið silfurljónið tvisvar á síðasta áratug, fyrir myndirnar Bjartar nætur bréfberans og Paradís.

Besta handritið skrifaði Chaitanya Tamhane fyrir myndina Lærisveinninn, The Disciple, indverska mynd um fiðluleikara sem Alfonso Cuarón er meðframleiðandi að.

Besti leikarinn var valinn Pierfrancesco Favino fyrir myndina Padrenostro, en þar leikur hann föður leikstjórans Claudio Noce og er myndin lauslega byggð á morðtilraun hryðjuverkamanna á föðurnum árið 1976 og eftirköstum þess, en faðirinn Alfonso Noce var aðstoðaryfirlögregluþjónn á þeim tíma. Myndin virðist þó á mörkum skáldskapar og raunveruleika, til dæmis er staðgengill leikstjórans í sögunni um tíu ára í myndinni, en var nýfæddur í raun þegar tilræðið átti sér stað.

Besta leikkonan var hin breska Vanessa Kirby, sem hefur hingað til verið þekktust fyrir lítil hlutverk í hasarmyndum á borð við Mission: Impossible og lék auk þess aðal kvenhlutverkið í Mr. Jones, en hefur til þessa unnið stærri afrek á leiksviði. Kirby vann verðlaunin fyrir hlutverk sitt sem örvæntingarfull móðir í Pieces of a Woman, frumraun hins ungverska leikstjóra Kornél Mundruczó á ensku, en hann leikstýrði hundruðum hunda í myndinni Hvíti guðinn (Fehér isten) fyrir nokkrum árum, en hér er dómur smyglara um hana.

Besti leikstjórinn var hinn japanski Kiyoshi Kurosawa fyrir Kona njósnarans (Supai no tsuma), ástarsaga frá tímum heimstyrjaldarinnar frá leikstjóra sem hingað til hefur verið þekktari fyrir hryllingsmyndir.

Silfurljónið hlaut mexíkanska myndin New Order (Nuevo orden), dystópískur þriller eftir Michel Franco, sem vann Un certain regard verðlaunin á Cannes fyrir After Lucia.

Loks vann Hirðingjaland, Nomadland, sjálft gullljónið og menn eru þegar farnir að spá Frances McDormand enn einum óskarnum í kjölfarið. Myndin er skáldskapur sem byggður er á raunverulegri mannfræðistúdíu, bókinni Nomadland: Surviving America in the Twenty-First Century. Leikstýran Chloé Zhao, sem sló í gegn fyrir fáeinum árum með The Rider, er raunar þekkt fyrir að vinna með mjög heimildamyndalegan stíl – en það er þó óvíst hvernig hann mun halda sér þegar hún leikstýrir Marvel-myndinni Eternals. Myndin verður sýnd á næstu RIFF.

Yngri leikstjórar keppninnar keppa svo um Orrizonte verðlaunin, kennd við sjónarrönd. Það er allur gangur á hvort stiklur séu til fyrir þær myndir hins vegar. En nokkrar fundust þó.

Besta frumraunin var mynd Ana Rocha de Sousa, Hlustaðu (Listen / Ouve-me).

Besta handritið fékk Pietro Castellitto fyrir ítölsku myndina Rándýrið, I Predatori.

Besti leikstjórinn var svo hinn filippeyski Lav Diaz fyrir myndina Kynþáttur, dýr (Lahi, Hayop) sem sker sig töluvert frá fyrri myndum leikstjórans, enda ekki nema tveir og hálfur tími að lengd. Leikstjórinn er hins vegar þekktari fyrir ótal myndir sem eru flestar á bilinu 4 til 8 tímar að lengd.

Loks var besta myndin hin íranska mynd Eyðilandið, Dashte khamoush, eftir Ahmad Bahrami, sem fjallar um ástir og átök í múrsteinaverksmiðju.

Þá er rétt að svindla aðeins og láta fylgja með stiklur úr nokkrum öðrum myndum sem vöktu mikla athygli.

One Night in Miami, frumraun leikkonunnar Reginu King sem leikstjóri, byggir á þekktu leikriti um kvöld eitt þar sem Cassius Clay, sem seinna tók upp nafnið Muhammed Ali, fagnaði heimsmeistaratitli með mönnum á borð við Malcolm X, Sam Cooke og Jim Browne.

Karl Marx var faðir sósíalismans – og Eleanor. Þannig kynnir stiklan Miss Marx til leiks, mynd sem fjallar um yngstu dóttur Marx, sem sjálf var aktívisti á milli þess sem hún þýddi Flaubert og Ibsen yfir á ensku. Ítalska leikstýran Susanna Nicchiarelli fjallaði einnig um unga stúlku sem höll var undir kommúnisma í sinni fyrstu mynd, Cosmonaut, en fjallaði síðast einnig um fræga konu úr mannkynssögunni, söngkonuna Nico í Nico, 1988.

Loks má nefna heimildamyndina I Am Greta, um aktívistiann Gretu Thunberg, og stuttmyndina sem Pedro Almodóvar og Tilda Swinton gerðu saman í kófinu, The Human Voice.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson