Það var verið að tagga mig í Facebook-leik og ég ákvað að gera uppreisn gegn ofríki Zuckerberg og blogga þessu frekar. Ekki það, ég deili þessu auðvitað á Facebook í kjölfarið, annars gæti maður alveg eins öskrað í vindinn.
En allavega, sjö eitíslög á sjö dögum. Sem endar væntanlega með enn frekari uppreisn, höfum þetta fjögur lög á dag. Uppreisnin getur nefnilega verið góð afsökun fyrir valkvíða.
Byrjum:
eitt
1986. Níu ára gutti aftur í bíl í sinni fyrstu utanlandsferð, einhvers staðar á þjóðvegum Þýskalands. Með fyrsta vasadiskóið sitt og fyrstu spóluna sem hann keypti í umrætt vasadiskó. Vasadiskóið var fagurrautt og spólan var Thriller.
tvö
Einhvern tímann dreymdi mig um hárgreiðslu eins og Limahl. Djöfull sem ég klikkaði á því. En allavega, besta lag í heimi. Ekki ennþá samt, en bókin er ennþá ein sú besta í heimi – og lagið fjandi gott á sinn yndislega kitsaða hátt. Þarna voru samt þrettán ár í að ég lærði orðið kits í tékkneskum háskóla (Takk Milan!) og ég naut bara dramatíkurinnar í botn.
þrjú
Undir lok níunda áratugarins kom einhver mini-bylgja alvarlegra og bókhneigðra söngkvenna sem bauð glysrokkinu birginn. Eftir á að hyggja var þetta forspilið af x-kynslóðinni, uppreisnin gegn uppunum hafin á undan áætlun. Tracy Chapman var sú eina sem ég fílaði af þessum stelpum þá, var of gegnsýrður af glysrokki til að kveikja á hinu.
Svo, löngu löngu seinna, var ég í plötubúð í Edinborg. Ég hafði heyrt eitthvað með Francoise Hardy nýlega, sem minnti mig á að ég þyrfti að finna plötu með henni – en svo var verið að spila Suzanne Vega í búðinni og þessi tónlist, sem hafði ekki gert neitt fyrir þrettán ára mig heillaði 27 ára mig upp úr skónum. Svo urðu Francoise og Suzanne soundtrack þessa sumars. Þær renna saman, ég man ekki hvora þeirra ég var að hlusta á í lestinni til Dublin þegar pabbi hringdi og sagði að ég þyrfti að koma heim, því amma væri dáin.
fjögur
Heyrðu, höfum Fast Car með líka. Út af því það er æðislegt og fólk hlustar alltof lítið á Tracy Chapman.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
eitís tvö – eitís þrjú – eitís fjögur – eitís fimm – eitís sex – eitís sjö