fimm
Fyrstu stuttmyndirnar sem ég sá í bíó voru myndirnar þeirra Filmu-manna. Þetta voru Akureyskir strákar, flestir í VMA, sem tóku stuttmyndagerðina nógu alvarlega til þess að sýna afurðirnar í Borgarbíó – og þetta voru ekki einhverjar innhverfar indímyndir með seigfljótandi drama – nei, þetta snérist allt um stanslausan straum aulabrandara og dásamlega langsóttra hasaratriða. Eins og til dæmis eltingarleik á skíðum og gúmmíbát niður kirkjutröppurnar.
Allavega, svo var einn aulabrandarinn sem bara ég hló að í öllum bíósalnum. Maður gerir dauðaleit í yfirgefnu húsi, opnar eldhússkáp, segir „a-ha“ þegar hann sér Best of a-ha disk – og lokar. En þetta var tekið í vinnunni hans pabba – og einhvern tímann hafði ég verið þarna í heimsókn, séð diskinn á þessum skrítna stað – spurt alla hver ætti diskinn – og þar sem hann var augljóslega munaðarlaus tók ég hann í fóstur. Í gamla daga hefði ég vel að merkja alltaf tekið Take on Me – eða mögulega Hunting High and Low. En með vaxandi þroska komst ég að því að The Sun Always Shines on TV er langbesta lag Morten Harket og félaga.
sex
Ókey, ég sleppi Cohen, Cave og Queen og fleirum sem sömdu firn af tónlist á níunda áratugnum en eru samt einhvern veginn alls ekki eitís. En Bowie, kamelljónið sem hann var, var eins eitís og hugsast gat í bestu eitís-lögunum sínum, þótt tónlistarsagan muni alltaf flokka hann á önnur tímasvið.
Kannski var þetta fyrsta Bowie-lagið mitt, ég man það ekki, en þetta er að minnsta kosti enn þann dag í dag það vanmetnasta. Bowie, maðurinn sem kunni alltaf að byrja aftur þegar þess þurfti og var því alltaf nýr. Maðurinn sem eltist aldrei, ekki fyrr en hann var við dauðans dyr.
sjö
Dívurnar maður, hverja á maður að taka? Bonnie Tyler fyrir eitíslegasta lagið af þeim öllum? Whitney fyrir brjálaða leigubílstjórann sem keyrði mig á JFK vikuna sem hún dó og var úr sama gettóinu? Cindy Lauper fyrir að fá Hómer Simpson til að dansa? Eða kannski Madonnu? Tökum Madonnu. Ég held nefnilega að hvergi rími innihald lags jafnilla við minningar mínar um það.
Ég man vissulega eftir brennandi krossum og Madonnu í rifnum lörfum, með örvæntingu í augunum – og þarna sá ég hana fyrst dökkhærða, fannst hún miklu sætari þannig. En samt tengi ég þetta lag alltaf við að skíða niður Hlíðarfjall – alla leið frá skálanum niður í bæ – með þetta lag í eyrunum. Óskíðalegasta lag í heimi – en samt í endalausu svigi í minningunni.
átta
Ég man eftir matarkróknum í Týról – sem varð svo símakrókur á kvöldin. Þetta var 1998 og þar fregnaði ég með stuttu millibili andlát nóbelsskáldsins og Falco. Enda Falco augljóslega Kiljan þeirra Austurríkismanna, eins og þetta stórfenglega lag er vitnisburður um. Þetta stórfenglega og snargalna, sjúka og óþægilega lag. Álíka misskilið og Bjartur í Sumarhúsum.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
eitís eitt – eitís þrjú – eitís fjögur – eitís fimm – eitís sex